Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits - verkefnið framlengt til tveggja ára

Fyrr í nóvember var ákveðið að framlengja samning um þjónustu vinnustaðafulltrúa fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland vestra. Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni 1. maí 2016 til 18 mánaða en hefur gengið það vel að það var nú framlengt í fjórða sinn. Samningurinn var nú framlengdur til tveggja ára, þ.e. til ársloka 2023 og mun Vilhelm Adolfsson áfram sinna starfi Verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits. 

Vilhelm segir að eðlilega hafi Covid sett starfinu miklar skorður. „Það verður að segjast að eftir að Covid skall á þá hefur starfið ekki verið eins öflugt og það á að vera. Það fer núna meira fram í gegnum síma og tölvu þar sem eftirlitsferðum var sjálfhætt vegna sóttvarnaraðgerða og fleira. Eftirlitsfulltrúar voru og eru núna eðlilega ekki velkominn á alla staði vegna t.d. smithættu. Annað slagið hef ég komist á gott skrið en alltaf sleginn jafnharðan niður aftur vegna þess að ný Covid bylgja leit dagsins ljós. Ég er að fá ábendingar sem þarf að sinna og hef farið í eina og eina eftirlitsferð þar sem hægt er. Vonandi fer þessari bylgju að ljúka þannig að hægt verði að sinna eftirlitinu af fullum þunga á ný. Þörfin er greinilega enn til staðar. Það þarf líka að upplýsa launþega á vinnumarkaði um réttindi og skyldur og veita þeim upplýsingar í hvaða stéttarfélagi það eigi að leita ef eitthvað bjátar á og slíkt.“

Einn réttur – ekkert svindl!
Alþýðusamband Íslands stendur í samstarfi við aðildarsamtök sín að verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL! Vert er að benda á heimasíðu verkefnisins www.ekkertsvindl.is þar sem m.a. er hægt að senda inn ábendingu eða spurningar. Athugið að farið er með allar ábendingar sem trúnaðarmál.

Eftirlitið er að skila árangri
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að það sé ánægjulegt að þetta samstarf haldi áfram. „Það hefur sannað sig að þetta starf er nauðsynlegt því eftirlitið hefur skilað árangri. Það að svona margir aðilar standi að baki eftirlitsfulltrúans gerir eftirlitið mun öflugara en ella, þó svo að Covid hafi sett strik í reikninginn með það eins og annað. Eins og áður hefur komið fram á opinberum vettvangi þá viðgengst því miður ýmis brotastarfsemi á vinnumarkaði, ekki síst gagnvart ungu fólki og erlendu launafólki. Það er skylda okkar að sjá til þess að réttur þeirra og annarra sé virtur og það erum við meðal annars að reyna með þessu verkefni.“ 

Eftirfarandi 11 stéttarfélög sem eru starfandi í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra standa að verkefninu: Eining-Iðja, sem ber ábyrgð á verkefnastjóranum, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Byggiðn - Félag byggingamanna, Rafiðnaðarsamband Íslands, Aldan-stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, MATVÍS, matvæla og veitingafélag Íslands og Félag iðn- og tæknigreina.