Mánudaginn 26. júní sl. var ákveðið að framlengja samning um þjónustu vinnustaðafulltrúa fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland vestra, sem var tilraunaverkefni til 18 mánaða og átti að ljúka 30. október nk. Samningurinn var framlengdur til ársloka 2018 og mun Vilhelm Adolfsson því áfram sinna starfi Verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits. Frá því hann var ráðinn 1. maí 2016 hefur hann skráð rúmlega 1.700 einstaklinga, eða um 140 á mánuði, farið í 65 eftirlitsferðir og farið inn í milli 5 til 600 fyrirtæki. Í hverri ferð hefur hann skráð að meðaltali 26 einstaklinga Vilhelm segir að allt taki þetta tíma því það þarf einnig að vinna úr þessum upplýsingum. „Það þarf að kanna hvort menn séu skráðir í þau félög sem þeir segjast vera í, og svo þarf að athuga í hvaða félagi fólk er, ef það veit það ekki sjálft.“
Hann hefur líka verið í sambandi við aðra eftirlitsfulltrúa sem hafa verið að koma á svæðið. „Búið er að fara vel yfir bygginga-, veitinga-, hótelgeirann, gististaði, ferðaþjónustuna og öll hin almennu fyrirtæki sem eru að störfum á mínu starfssvæði,“ segir Vilhelm. „Málin sem hafa komið upp í þessum eftirlitsferðum eru misjafnlega alvarleg, flest eru leyst með aðkomu þeirra stéttarfélaga sem í hlut eiga. Svo hafa komið upp alvarleg mál sem hefur þurft að vísa til lögreglu. Það hef ég gert í þrígang, þar af komu tvö þeirra upp nú í maí. Þessi mál eru farin að vinda verulega uppá sig. Þau hafa verið unnin í samvinnu við opinberar stofnanir.
Ánægjulegt að samstarfið haldi áfram
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að það sé ánægjulegt að þetta samstarf haldi áfram. „Það hefur sannað sig að þetta starf er nauðsynlegt og það að svona margir aðilar standi að baki eftirlitsfulltrúans gerir þetta enn öflugara og eins er mun meiri festa í eftirlitinu en áður en þetta samstarf kom til.“ Björn segir að fyrirtæki leiti í meira mæli til stéttarfélaganna eftir upplýsingum og telur að með því vilji þau hafa hlutina í lagi. „Það er líka minni óvissa hjá í mörgum aðilum í dag hvernig eigi að standa að hlutunum þar sem eftirlitsfulltrúinn er mikið á ferðinni, en auk eftirlitsins getur hann líka gefið góðar leiðbeiningar. Sem betur fer eru flestir með allt í lagi en hinir gera það að verkum að svona eftirlit er nauðsynlegt. Samstarf við margar opinberar stofnanir hefur verið mjög gott en það er stór þáttur í því að þetta starf er að skila svona góðum árangri.“
Að verkefninu standa 14 eftirtalin stéttarfélög sem eru starfandi í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra: Eining-Iðja, sem ber ábyrgð á verkefnastjóranum, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Byggiðn - Félag byggingamanna, Rafiðnaðarsamband Íslands, Aldan-stéttarfélag, Séttarfélagið Samstaða, Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, Félag leiðsögumanna, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís, matvæla og veitingafélag Íslands, Félag iðn- og Tæknigreina og Félag Harsnyrtisveina.