Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland vestra

Í apríl náðist sögulegt samkomulag á milli 14 stéttarfélaga sem eru starfandi í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra um stóraukið vinnustaðaeftirlit með því að ráða einn sameiginlegann verkefnastjóra fyrir vinnustaðaeftirlit á svæðinu. Samningurinn tók gildi þann 1. maí sl. og gildir í átján mánuði, eða til 30. október 2017. Litið er á að þetta fyrsta tímabil samningsins sé tilraunatímabil þar sem þjónustan er í mótun og uppbyggingu og því er nauðsynlegt að endurskoða allan samninginn fyrir lok þessa tímabils í ljósi reynslunnar. Fjórum mánuðum fyrir lok samningstímans skulu samningsaðilar endurskoða samningstextann með það að markmiði að nýr samningur taki gildi 1. nóvember 2017 eða að samstarfinu verði slitið.

Félögin sem standa sameiginlega að þessari ráðningu eru Eining-Iðja, sem ber ábyrgð á verkefnastjóranum, Félag verslunar-og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Byggiðn - Félag byggingamanna, Rafiðnaðarsamband Íslands, Aldan stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, Félag leiðsögumanna, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís, matvæla og veitingafélag Íslands, Félag iðn- og tæknigreina og Félag Hársnyrtisveina. 

Enn öflugara vinnustaðaeftirlit
Meginmarkmiðið með þessari ráðningu er að stuðla að því að á félagssvæðum áðurnefndra félaga verði enn öflugra vinnustaðaeftirlit en nú er, með heimsóknum og nánara eftirliti frá verkefnastjóra og starfsmönnum stéttarfélaga. Einnig að hafa gott samband við stofnanir ríkisins er fara með málefni vinnumarkaðarins, t.d. Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitið og Útlendingastofnun. Sérstök áhersla er lögð á að koma snemma að málum og koma í veg fyrir að brotastarfsemi þróist á félagssvæðum stéttarfélaganna. 

Einn réttur – ekkert svindl
Verkefnastjórinn nýtist jafnframt vel í verkefninu Einn réttur – ekkert svindl sem Alþýðusamband Íslands í samstarfi við aðildarsamtök sín stendur í. Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi. Verkefnið er tvískipt, annars vegar beinist það að brotum gagnvart erlendu vinnuafli og hins vegar brotum á ungu fólki en báðir eiga þessir hópar sammerkt að vera illa upplýstir um rétt sinn á vinnumarkaði. Komið hefur verið á fót sameiginlegum samráðs- og aðgerðahópi fulltrúa frá þeim stjórnsýslustofnunum sem koma með einum eða öðrum hætti að eftirliti með vinnumarkaðnum og aðilum vinnumarkaðarins. Auk þess að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir og miðla upplýsingum sín á milli, vinnur hópurinn að því að skýra og styrkja regluverkið og þá löggjöf sem að þessum málum snýr og auka heimildir í vinnustaðaeftirliti. Kíktu á ekkertsvindl.is 

„Þetta verkefni er langhlaup“
Vilhelm Adolfsson var ráðinn í starf verkefnastjórans og hóf störf 1. maí sl. Hann er menntaður lögreglumaður en hann lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins 2004 og starfaði á árum áður sem lögreglumaður á Austurlandi og á Akureyri. Síðan 2010 hefur hann starfað í Becromal á Akureyri og hefur verið trúnaðarmaður starfsmanna frá árinu 2011. Vilhelm er með aðsetur á skrifstofu félagsins á Akureyri en skipuleggur og fer í vettvangsferðir á vinnustaði á samningssvæðinu sem er Eyjafjörður, Skagafjörður og Húnavatnssýslur. Eftirfarandi viðtal birtist í blaði félagsins sem kom út í vikunni.

„Fyrstu þrjár vikurnar, eða rúmlega það, fóru í upplýsingasöfnun, forvinnslu í sambandi við vinnustaði á svæðinu sem er býsna víðfemt, sitja námskeið, að mynda tengslanet og slíkt. Góður undirbúningur skiptir öllu máli í þessu sem og öðru. Ég finn það svo núna eftir að hafa verið á ferðinni að undirbúningurinn hefði jafnvel mátt vera meiri, en tíminn hefur ekki leyft það,“ sagði Vilhelm aðspurður um hvernig hefði gengið og bætir við að eftirfylgnin skipti líka miklu máli og því megi ekki fara í of mörg fyrirtæki í hverri ferð. „Það er ekki nóg að mæta bara í fyrirtæki og skrá niður nöfn starfsmanna. Það þarf að vinna úr þeim upplýsingum sem ferðin gefur, vera með eftirfylgni ef þörf krefur og ef það kemur upp mál út úr heimsókninni þarf að vinna í því. Þetta tekur allt sinn tíma.“

„Það hefur ýmislegt drifið á daginn á þessum fyrstu sex vikum, bæði gott og slæmt. Ég er að mestu búinn að fara um allt svæðið og það verður að segjast að sum fyrirtæki eru alveg til fyrirmyndar á meðan önnur eru því miður með „allt niður um sig.“ Þetta verkefni er langhlaup, ekki spretthlaup. Ég er ráðin til 18 mánaða og miðað við þá vinnu sem búin er að eiga sér stað frá því ég hóf störf þá er sýnilega mikil þörf á þessu.

Eins og staðan er í dag þá hafa félögin sjálf ekki bolmagn, tíma eða mannaforráð til að sinna þessu verkefni eins og vera ber. Nú get ég, í samstarfi við félögin sem að verkefninu koma, einbeitt mér að þessu verkefni og fengið þá aðstoð sem þarf frá hverri skrifstofu fyrir sig. Á Akureyri eru nokkrir eftirlitsfulltrúar sem geta farið á staðina með mér ef ég þarf á að halda, en á minni stöðunum er bara einn fulltrúi til staðar og það getur skapað vandamál því auðvitað geta komið upp veikindi og eins þurfa menn að fara í sumarfrí og slíkt.“ 

Hvað með samstarf við aðrar stofnanir?
„Samstarf við stjórnsýslustofnanir hvar sem er á landinu sem koma með einum eða öðrum hætti að eftirliti með vinnumarkaðnum hefur verið alveg til fyrirmyndar. Við erum líka að vinna að sameiginlegu markmiði, að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði,“ sagði Vilhelm að lokum.