Verðlagseftirlit ASÍ - Yfir 70% verðmunur á matvöru

Ný verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ sýnir að gríðarlegur verðmunur er á hinum ýmsu vörum í öllum vöruflokkum. Í 52 tilvikum af 100 var yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði og í 24 tilvikum var verðmunurinn yfir 70%. Iceland var oftast með hæsta verðið, eða í 35 tilvikum af 100, en Bónus var oftast með lægsta verðið, eða í 63 tilvikum af 100. Hagkaup var sú verslun sem var næstoftast með hæsta verðið, eða í 21 tilviki af 100. Verðkönnunin var framkvæmd í 8 stærstu verslunum landsins.

Lítil vörukarfa 3.108 kr. dýrari í Iceland en í Bónus

Samanburður á lítilli vörukörfu með 12 vörum sýnir að spara má 3.108 krónur með því að versla í Bónus í stað Iceland. Vörukarfa þessi inniheldur vörur eins og brauð, djús, kjötbollur, banana, cheerios, handsápu og  þvottaefni en vörurnar eru 13 talsins. Verðmuninn má sjá í töflunni hér fyrir neðan.  

 

Iceland

Bónus

Verðmunur í %

Verðmunur í krónum

Fitty samlokubrauð - 500 gr

499

349

43%

150

Tíðartappar OB original 16 stk

449

259

73%

190

Neutral storvask ódýrasta kílóverð

705

410

72%

295

Handsápa Palmolive Almond milk m/pumpu 300 ml

399

229

74%

170

Cheerios - ódýrasta kg verð

1.542

750

106%

792

Neutral storvask ódýrasta kílóverð

705

410

72%

295

St. Dalfour bláberja sulta 284 gr

669

398

68%

271

Trópí tríó - 3pl (250 ml *3)

369

195

89%

174

1944 - Hakkbollur í brúnni sósu m. kartöflumús

729

595

23%

134

Góu Hraunbitar

349

223

57%

126

Bananar

399

179

123%

220

Lyle's golden syrup 454 gr dós

399

189

111%

210

Knorr Aromat 90 gr. staukur

329

249

32%

80

 

Verðmunur á vörukörfu

3.108

 

Sláandi mikill verðmunur á meirihluta varanna - oft yfir 70% verðmunur

Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi en þær sýna að gríðarlegur verðmunur var á flestum vörunum í könnuninni. Á mörgum vörum var yfir 40% verðmunur milli dýrasta og ódýrasta valkostsins og 70% verðmunur var á fjórðungi varanna. 100% verðmunur var á frosnu lambalæri, lægsta verðið mátti finna í Bónus og í Nettó þar sem það kostaði 1.098 kr. en hæsta verðið var í í Kjörbúðinni Sandgerði þar sem það kostaði  2.109 kr. Litlu ódýrara var það í Hagkaup þar sem kílóverðið var 2.099 krónur. Munur á hæsta og lægsta verði á svínakótilettum var 64%, lægst var verðið í Krónunni, 1.399 kr. kg en hæst var það í Iceland á 2.299 kr. Þá var 42% eða 801 kr. verðmunur á ferskum laxi, lægsta verðið var í Nettó, 1.898 kr. en það hæsta í Iceland 2.698 kr. en Hagkaup var einungis einni krónu lægra með 2.698 kr. kílóið. Mjög mikill verðmunur var einnig á ávöxtum og grænmeti, drykkjarvörum, þurrvörum og dósamat, brauði og kextmeti. 

Töfluna í heild sinni má sjá hér.

Um könnunina

Í könnuninni var hilluverð á 100 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Hafnarfirði, Nettó Granda, Krónunni Hafnarfirði, Hagkaup í Spönginni, Iceland í Glæsibæ, Fjarðarkaupum, Costco og Kjörbúðinni Sandgerði. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ