Verðlagseftirlit ASÍ: Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum

Verslunin Bónus Skipholti var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 8 verslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Hæsta verðið var oftast að finna í Iceland Engihjalla. Munurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 5% upp í 129% en oftast var 25-50% verðmunur. Verðmerkingum var ábótavant í Krónunni Flatahrauni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Víði Granda en í þessum verslunum vantaði hillumiða í um og yfir 10% tilvika.

Af þeim 136 vörutegundum sem skoðaðar voru, reyndust flestar vörurnar fáanlegar í Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 130 vörur og í Iceland þar sem 127 vörur voru fáanlegar. Fæstar vörur voru fáanlegar í Bónus eða 106 af 136, Nettó Búðarkór átti 108 og Krónan 111.

Mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti
Af þeim vörum sem skoðaðar voru var mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti eða á bilinu 26-129%. Minnstur verðmunur var á eggaldinni 26% sem var dýrast á 495 kr./kg. hjá Bónus en ódýrast á 393 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum. Mestur verðmunur í könnuninni var á vatnsmelónu sem var dýrust á 298 kr./kg. hjá Hagkaupum Spönginni en ódýrust á 130 kr./kg. hjá Krónunni sem er 168 kr. verðmunur eða 129%. 44% verðmunur var einnig á íslenskum gulrótum sem voru ódýrastar á 485 kr./kg. hjá Víði en dýrastar á 698 kr./kg. hjá Iceland.

Minnstur verðmunur á osti, viðbiti og mjólkurvörum
Eins og oft áður er minnstur verðmunur á osti, viðbiti og mjólkurvörum. Verðmunurinn var oftast um 10-20%. Minnstur verðmunur að þessu sinni var 5% á einum lítra af léttmjólk frá Örnu, mjólkin var ódýrust á 209 kr. hjá Bónus en dýrust á 219 kr. hjá Hagkaupum.

Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum
Mikill verðmunur var á milli verslana eða oftast á bilinu 25-50%. Sem dæmi má nefna að flatkökurnar frá Kökugerð HP Selfossi voru ódýrastar á 127 kr. hjá Bónus en dýrastar á 169 kr. hjá Samkaupum-Úrval sem er 33% verðmunur. Mikill verðmunur var einnig á SS skólakæfu sem var ódýrust á 1.780 kr./kg. hjá Nettó en dýrust á 2.060 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem er 16% verðmunur. 
Kílóverð af frosnum lambahrygg var ódýrast á 1.699 kr. hjá Iceland en dýrast á 2.398 kr. hjá Samkaupum-Úrval, sem er 699 kr. verðmunur á kg. eða 41%. Barnamjólkin frá NAN nr. 1 í fernu, 200 ml. var ódýrust á 145 kr. hjá Bónus en dýrust á 199 kr. hjá Iceland sem er 37% verðmunur. Mikill verðmunur var einnig á rauða safanum superberries frá The berry company, einn líter var ódýrastur á 349 kr. hjá Bónus en dýrastur á 449 kr. hjá Iceland sem er 29% verðmunur.

Illa verðmerkt í mörgum verslunum 
Áberandi var hve illa verðmerkt var í Krónunni, Samkaupum-Úrval og Víði eða í um og yfir 10%. Verðmerkingum var einnig ábótavant í verslununum Nettó og Hagkaupa í um 5% tilvika. Fyrirtæki sem selja vöru eða þjónustu eiga að hafa verðmerkingar í lagi. Verð vöru á að vera sýnilegt með verðmerkingu við hillu eða á þann hátt að verðið er birt með skýrum og greinilegum hætti. Það er skylda söluaðila samkvæmt lögum að hafa skýrar, aðgengilegar og greinilegar verðmerkingar á sölustað svo það sé augljóst hvað varan kostar.

Sjá nánari upplýsingar um verðsamanburð í töflu