Nú styttist í jól og margir standa í ströngu við að kaupa jólagjafir. Þrátt fyrir ösina getur marg borgað sig að hægja aðeins á og gera verðsamanburð á þeim hlutum sem á að kaupa í jólapakkana áður en farið er af stað í jólagjafaleiðangur.
Þrátt fyrir að það sé ekki algilt, má í mörgum tilfellum finna sömu vörur í fleiri en einni verslun og er þá kjörið að athuga hvort verðmunur sé á milli verslana áður en viðkomandi vara er keypt.
Mikið af búðum eru komnar með netverslanir eða upplýsingar um verð á vörum á vefsíðum sínum þar sem hægt er að sjá hvað hlutirnir kosta. Í mörgum tilfellum má með stuttu „gúggli“ eða leit á vöruleit Já.is, komast að því hvort aðrar verslanir bjóði upp á sömu vöru og hvort einhver verðmunur sé milli verslana á þeim vörum sem leitað er að.
Mikill verðmunur getur verið á tölvuleikjum
Tölvuleikir eru meðal þess sem getur verið mikill verðmunur á en þetta árið fór verðlagseftirlit ASÍ á stúfana til að athuga verð á tölvuleikjum hjá þeim verslunum sem eru með hvað mest úrval. Þar kom í ljós að í mörgum tilfellum var mikill verðmunur á tölvuleikjum milli verslana og verðmunurinn getur numið mörg þúsund krónum á einum leik.
Þannig var t.d. 2.000 kr. verðmunur milli verslana á Star Wars Jedi: Fallen order tölvuleiknum fyrir PS4, 4.005 kr. verðmunur á Shadow of the Tomb Raider fyrir PS4, 1.910 kr. verðmunur á Just Dance 2020 fyrir Nitendo Switch og 1.991 kr. verðmunur á Lost Sphear fyrir Nitendo Switch. Þá var 50% eða 3.500 kr. verðmunur á leiknum FIFA 20 fyrir Nitendo Switch sem hefur notið hefur mikilla vinsælda.
Sjá verðsamanburð á tölvuleikjum í töflu
Úrvalið var mjög misjafnt eftir verslunum og í mörgum tilfellum voru einungis örfáar, jafnvel bara tvær verslanir sem voru með sömu tölvuleiki en þrátt fyrir það gat munað mjög miklu í verði.
Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum þann 12. desember: Heimkaup.is, Elko, Gamestöðinni, Tölvutek og Bræðrunum Ormsson. Verðathugunin var einnig framkvæmd hjá vefverslun Kids Coolshop (engir leikir í boði í versluninni) en þar sem að verslunin getur ekki ábyrgst að vörurnar verði komnar fyrir jól og athugunin er framkvæmd með jólagjafir í huga, er hún ekki tekin með í samanburðinum núna.
Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að gera verðsamanburð á jólagjöfum sama hvort það eru tölvuleikir, leikföng eða aðrar jólagjafir. Neytendur ættu einnig að hafa í huga að verð á vörum getur breyst hratt á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.