Verðlagseftirlit ASÍ - Algengur verðmunur á jólabókum 1.500- 2.500 krónur

Í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólabókum var Bónus oftast með lægsta verðið, í 62 tilvikum af 77 á bókum en Penninn.is oftast með hæsta verðið, í 52 tilvikum. Könnunin var gerð 10. desember sl. Í mörgum tilfellum var verð á bókum Mál og Menningar og Heimkaupa einungis um 10 krónum lægra en verð á bókum hjá Pennanum sem var oftast með hæstu verðin. Oftast var 40-60% munur á hæsta og lægsta verði milli verslana og algengt var að 1.500- 2.500 kr. verðmunur væri á bókum.

Penninn Eymundsson vísaði fulltrúa Verðlagseftirlitsins út úr verslun sinni í Austurstræti og neitaði þáttöku og virðist því ekki telja það þjóna hagsmunum sínum að neytendur séu upplýstir um verð í versluninni. Rétt er að vekja athygli á að verð var kannað á penninn.is sem er netverslun Pennans-Eymundssonar.

Bónus oftast með lægsta verðið

Í flestum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta verði á bókum en algengasti verðmunur á milli verslana var á bilinu 40-60% eða í 58 tilvikum af 77. Algengur verðmunur í krónum talið var frá 1.500 kr. og upp í 2.500 kr. og því um töluverðar upphæðir að ræða sem getur munað á verði á bókum milli verslana.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 61 tilviki af 77 en í öðrum tilfellum dreifðust lægstu verð á Hagkaup, Nettó, Nettó.is og Forlagið. Penninn.is var oftast með hæsta verðið eða í 52 tilvikum af 77. Mál og menning var næst oftast með hæsta verðið og þar á eftir kom Heimkaup.is. Í mörgum tilfellum munaði þó afar litlu á verðunum milli þessara þriggja verslana eða um 10 krónum og í einhverjum tilfellum 100 krónum.

5.992 kr. verðmunur á Síldarævintýrinu

Mestur var verðmunurinn á bókinni Fótboltaspurningar eftir Bjarna Þór og Guðjón Inga eða 160%. Lægst var verðið hjá Bónus, 998 kr. en hæst hjá Heimkaup.is, 2.590 kr. sem gerir 1.592 kr. verðmun.  Í krónum talið var mestur verðmunur á bókinni Síldarárin 1867-1969 eftir Pál Baldvin Baldvinsson, 5.992 kr. eða 54%. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur, 3.101 krónur eða 53% en ódýrust var hún í Bónus á 5.898 kr. en dýrust hjá Penninn.is á 8.999 kr.

Önnur dæmi er bókin Dimmumót eftir Steinunni Sigurðardóttur sem var ódýrust í Bónus á 3.398 kr. en dýrust í Heimkaup. 6.990 kr. sem gerir 3.592 kr. verðmun eða 106%. Dæmi um bækur þar sem finna mátti um 2.500 kr. verðmun á milli verslana eru Þögn, eftir Yrsu Sigurðardóttur, Hvítidauði, eftir Ragnar Jónsson, Tregasteinn, eftir Arnald Indriðason, Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur og Innflytjandinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Allar voru þær bækur ódýrastar í Bónus en dýrastar í Mál og Menningu eða í Heimkaup.is. Í þessum tilfellum voru bækurnar annaðhvort jafndýrar í þessum tveimur verslunum eða það var einungis 9 kr. munur á milli þeirra. Sama gilti um Pennann í tilfelli bókarinnar Innflytjandans. 

Sjá verðsamanburð á bókum og litakort í töflu.

Aukinn kostnaður getur fylgt því að kaupa bækur hjá netverslunum þegar þær peningaupphæðir sem verslað eru fyrir eru ekki háar. Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig heimsendingarkostnaður leggst á pantanir frá netverslununum.

Penninn-Eymundsson neitaði þátttöku
Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, Mál og Menningu Laugarvegi, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Smáratorgi, Heimkaup.is, Netto.is og Penninn.is.
Penninn Eymundsson Austurstræti vísaði starfsmanni verðlagseftirlits ASÍ út úr verslun í Austurstræti og meinaði honum að taka niður upplýsingar um verð.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.