Markmið verðlagseftirlits ASÍ er annars vegar að auka upplýsingastreymi til neytenda og efla þannig neytendavitund og hins vegar að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald. Megináhersla í störfum verðlagseftirlitsins hefur verið lögð á að skoða matvörumarkaðinn en einnig hefur sjónum verið beint að ýmsu öðru sem viðkemur pyngju neytenda.
Fyrr á árinu héldu verðlagseftirlit ASÍ og Neytendasamtökin málþing um verðlag á matvöru sem vakti mikla athygli. Streymt var frá þinginu á heimasíðu ASÍ og er hægt að horfa á upptökuna þar. Mikill samhljómur var meðal frummælenda á þinginu og þeirra sem tóku þátt í pallborðsumræðum, um að verðlag á matvöru á Íslandi væri hærra en það þyrfti að vera og að ýmsar leiðir væru færar til að lækka það.
Nýr vettvangur neytenda til að veita fyrirtækjum aðhald
Í maí setti Verðlagseftirlit ASÍ á fót Facebookhóp þar sem almenningur getur sent inn ábendingar og upplýsingar um verðhækkanir og/eða látið vita af fyrirtækjum sem ekki hafa hækkað verð hjá sér og bjóða upp á gott verð. Þarna geta fyrirtæki einnig látið vita ef þau hafa ekki hækkað verð og ætla sér ekki að gera það.
ASÍ sendi frá sér tilkynningu þegar hópurinn var stofnaður þar sem segir að með nýjum kjarasamningum hafi launafólk axlað ábyrgð en það geti ekki og eigi ekki að gera það eitt. „Fyrirtækin í landinu verða einnig að axla ábyrgð á stöðugleikanum í íslensku efnahagslífi. Það er ekki í boði að kostnaði vegna kjarasamninga verði velt út í verðlagið.“
Við hvetjum alla til að finna þennan hóp á facebook, ganga í hann og taka þannig þátt í að veita fyrirtækjum aðhald og tryggja að umsamdar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti.
Matarsóun
Vissir þú að matarsóun nemur um 60 þúsund kr. á einstakling á ári eða 240.000 kr. á fjögurra manna fjölskyldu? Væri ekki skemmtilegra að eyða peningnum í eitthvað annað og stemma stigu við loftslagsbreytingum í leiðinni?
Verðlagseftirlit ASÍ tók saman nokkur góð og skilvirk ráð til að minnka matarsóun eins og sjá má t.d. hér