Verðkönnun á páskaeggjum

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á páskaeggjum 7. apríl og þar vekur athygli að í öllum þeim tilvikum sem páskaegg fengust bæði í Bónus og Krónunni, voru þau einni krónu ódýrari í Bónus eða í alls 20 tilvikum.

Bónus var oftast með lægstu verðin í könnuninni, í 25 tilvikum en Krónan næst oftast, í fimm tilvikum. Hagkaup og Nettó voru oftast með hæstu verðin eða í 15 tilvikum hvor verslun. Hagkaup.is var með hæstu verðin í átta tilvikum, Iceland í sex og Netto.is í fimm tilvikum. Athygli vekur að verð á páskaeggjum er ívið hærra í Nettó en á Netto.is.

Jafn algengt var að verðmunurinn í könnuninni væri á bilinu 0-20% og að hann væri 20-40% eða 15 sinnum í báðum tilvikum. Í einu tilviki var munur á hæsta og lægsta verði á bilinu 40-60% og í einu tilviki 60-80%.
Mesti munur á hæsta og lægsta verði var á Freyju Rís Dessert eggjum, fjórum saman í pakka, 65,2% en hæst var verðið í Hagkaup, 659 en lægst var verðið í Krónunni, 399 kr. Næst mesti munur á hæsta og lægsta verði var á litlum páskaeggjum frá Góu en 54,4% munur var á eggjunum sem kostuðu minnst 349 kr. í Bónus en mest, 539 kr. í Hagkaup.

Ef stærri eggin eru skoðuð má sjá að mestur munur var á hæsta og lægsta verði af Nóa Siríus dökku páskaeggi nr. 4 eða 34,7% en lægsta verðið mátti finna í Bónus, 2.895 kr. en það hæsta í Hagkaup 3.899 kr. Mikill munur eða 31,4% var á hæsta og lægsta verði af Góu Lindor hvítu súkkulaði páskaeggi sem kostaði minnst 1.598 kr. í Bónus en mest 2.099 kr. í Nettó. Þá var 32,6% munur á hæsta og lægsta verði af Nóa Siríus Perlu hnappa páskaeggi sem kostaði minnst 1.809 kr. í Bónus en mest 2.399 kr. í Hagkaup. Sami verðmunur var á Nóa Siríus páskaeggi með kremkexi sem kostaði minnst 1.809 kr. í Bónus en mest 2.399 kr. í Hagkaup.

Minnsta úrvalið var á Heimkaup.is en þegar könnunin var framkvæmd voru einungis fimm páskaegg til af þeim 32 sem könnunin náði til. Mesta úrvalið var í Iceland en fengust öll páskaeggin sem könnunin náði til.

Sjá nánar niðurstöður í töflu 

Verðkönnunin nær til 32 algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.
Könnunin var gerð þriðjudaginn 7. apríl í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaupum, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Netto.is, Hagkaup.is og Heimkaup.is

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.