Verð á jólamat hækkaði um 6-17% milli ára, samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ . Verðum var safnað þann 13. desember árið 2023 og þau borin saman við verð í sambærilegri könnun sem framkvæmd var fyrir ári, 13. desember 2022. Vísitala matvöruverðs hækkaði um 11% á sama tímabili.
Minnst hækkaði verð í Heimkaupum, að meðaltali um 6%. Þar af hækkaði verð á brauði og kökum um aðeins 2% en verð á drykkjarvöru um 16%. Í Nettó, Krónunni, Kjörbúðinni og Bónus hækkaði verð að meðaltali um 7-9%. Mest hækkaði verð í Iceland, að meðaltali 17%, Hagkaupum (15%) og Fjarðarkaupum (13%). Drykkjarvörur í Iceland voru sá flokkur sem mest hækkaði í verði, eða um 48%. Mismargar vörur voru í samanburðinum í hverri verslun, flestar í Fjarðarkaup, 83 og fæstar í Kjörbúðinni, 38.