Oftast var á milli fjórðungs og helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði milli verslananna. Lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus Korputorgi eða á 51 titlum af 70 og hjá Nettó Mjódd á 12 titlum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Hagkaupum Skeifunni á 30 titlum, hjá Forlaginu Fiskislóð á 23 titlum og hjá Bóksölu stúdenta á 20 titlum.
Mjög mikill munur á vöruúrvali
Mikill munur er á vöruúrvali á milli þeirra 7 verslana sem könnunin náði til. Allir 70 bókatitlarnir sem skoðaðir voru fengust hjá Forlaginu og Hagkaupum Skeifunni. Bóksala stúdenta og Nettó Mjódd áttu 66 af titlunum 70. Fæstir bókatitlarnir voru fáanlegir hjá Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði eða 19 af 70, Krónan Lindum átti til 39 og Bónus 59.
Mestur verðmunur í könnuninni var á fræðibókinni Orðbragð, sem var á lægsta verðinu hjá Bóksölu stúdenta á 3.595 kr. en dýrust hjá Forlaginu á 5.390 kr. sem er 1.795 kr. verðmunur eða 50%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á barnabókinni Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason sem var ódýrust hjá Bónus á 2.959 kr. en dýrust hjá Bóksölu stúdenta á 3.495 kr. sem er 536 kr. verðmunur eða 18%.
Oftast 25-50% verðmunur
Sem dæmi um mikinn verðmun á vinsælum titlum fyrir jólin má nefna að bókin DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur var ódýrust á 3.998 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.690 kr. hjá Forlaginu, sem er 42% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á prjónabókinni Litlu skrímslin – skemmtilegt dýraprjón á yngstu börnin sem var ódýrust á 3.079 kr. hjá Bónus en dýrust á 3.995 kr. hjá Bóksölu stúdenta sem er 30% verðmunur. Að lokum má benda á að Kamp Knox eftir Arnald Indriðason var ódýrust á 3.999 kr. hjá Krónunni en dýrust á 5.690 kr. hjá Forlaginu sem er 42% verðmunur.
Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu neituðu þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu stúdenta Sæmundargötu, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Korputorgi, Krónunni Lindum og Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.