Verðbólgan gerir vart við sig

Á vef ASÍ má finna eftirfarandi frétt. Verðlag lækkaði um 0,09% í janúar en ársverðbólga mælist nú 2,4% að því er fram kemur í nýrri mælingu Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn hefur verðlag lækkað um 0,9% á síðastliðna 12 mánuði. Mest áhrif til breytinga á verðlagi í janúar hafa lækkanir á verði á fötum og skóm og flugfargjöldum til útlanda en á móti vega hækkanir á húsnæði og ýmsum opinberum álögum.

 

Útsöluáhrif gera vart við sig í vísitölumælingu janúarmánaðar. Mest áhrif til lækkunar á verðlagi hefur  lækkun á verði á fötum og skóm um 10% sem hefur 0,35% áhrif til lækkunar á verðlagi í mánuðinum. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkar um 5,9% frá fyrra mánuði ( -0,23% vísitöluáhrif) og verð á sjónvörpum, myndböndum og tölvum lækkar um 3,6% (-0,04% vísitöluáhrif). Þá lækkar verð á flugfargjöldum til útlanda um 9% ( -0,1% vísitöluáhrif).

Hækkanir á ýmsum þjónustugjöldum sveitarfélaganna

Á móti vegur að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkar um 0,9% frá fyrra mánuði ( 0,19% vísitöluáhrif) og kostnaður vegna húsaleigu hækkar sömuleiðis um 0,9% ( 0,05% vísitöluáhrif).  Þá hækkuðu ýmsar opinberar álögur um áramót og sést þess stað í vístölunni. Má þar nefna hækkanir á ýmsum þjónustugjöldum sveitarfélaganna ss. holræsagjaldi um 4,9% ( 0,03% vísitöluáhrif), köldu vatni sem hækkar um 6,7% ( 0,03% vísitöluáhrif), rafmagni sem hækkar um 2,9% ( 0,04% vísitöluáhrif) og hita sem hækkar um 1% ( 0,02% vísitöluáhrif). Þá hækka gjaldskrár leikskóla og dagmæðra um 1,9% í mánuðinum og þjónusta vegna síðdegisgæslu í grunnskólum um 1,8% ( 0,02% vísitöluáhrif). Eldsneyti hækkar um 3,6% frá fyrra mánuði (0,07% vísitöluáhrif) sem rekja má að mestu til hækkana á vörugjaldi og kolefnagjaldi um áramót auk þess sem áfengi og tóbak hækka um 1,3% ( 0,03% vísitöluáhrif) sem skýrist einkum af hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi um ármót.