Breyting á verði í desember skýrist meðal annars af hækkun flugfargjalda en þau hækkuðu um 16,9% (0,19% vísitöluáhrif), kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækkaði um 0,4% (0,12%) á meðan verð á bensíni lækkaði um 1,9% (-0,06). Vísitala neysluverðs fyrir allt árið 2015 liggur nú fyrir og mældist meðalverðbólga á árinu 1,6%. Á síðasta ári var meðalverðbólgan 2,0%.
Þrátt fyrir vöxt innlendrar eftirspurnar hefur verðbólga verið undir væntingum undanfarna mánuði. Þetta skýrist að mestu af hagfelldri þróun gengis krónunnar og lágu heimsmarkaðsverði á olíu. Innfluttar vörur hafa því haldið verðbólgunni niðri undanfarna tólf mánuði á meðan innlendar vörur hafa sett þrýsting á verðlag. Helsti drifkraftur verðbólgu hefur hinsvegar verið hækkun húsnæðisverðs en kostnaður við húsnæði hefur hækkað um 7,1% undanfarna 12 mánuði. Á sama tíma hefur verð á nýjum bílum lækkað um 3,7% og verð á bensíni lækkað um 12,2%. Verð á innlendum mat- og drykkjarvörum hefur aftur á móti hækkað um 3,1% og opinber þjónusta um 3,5%.
Vænta má þess að verðbólga fari vaxandi á næstu mánuðum en hversu mikið kemur til með að ráðast af þróun gengis krónunnar og heimsmarkaðsverði olíu.