Verð í matvöruverslunum hefur í mörgum tilfellum hækkað umtalsvert síðan í febrúar en miklar verðhækkanir er að finna í flestum vöruflokkum. Mörg dæmi eru þó einnig um að verð lækki eða standi í stað milli mánaða. Því er ljóst að mikil hreyfing er á verði á markaði, bæði til hækkunar og lækkunar. Mestar verðhækkanir eru á ávöxtum og grænmeti en þurrvara, brauð og kex og dósamatur hefur einnig í mörgum tilvikum hækkað mikið. Verð lækkar þó einnig í ýmsum vöruflokkum, m.a. á mjólkurvörum og hreinlætisvörum.
Þetta sýnir samanburður á verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ dagana 18. febrúar og 21. apríl 2020. Þær verslanir sem samanburðurinn nær til eru Bónus, Krónan, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland, Kjörbúðin, Heimkaup.is og Netto.is.
Ef verð í öllum verslunum á þeim vörum sem voru kannaðar er skoðað, má sjá að verð hækkar í 65% tilfella en lækkar í 35% tilfella. Algengast er að verðhækkanir séu um eða undir 5% eða í 38% tilvika en í 25% tilvika eru verðhækkanir yfir 5%.
Miklar verðlækkanir í Iceland
Í könnuninni má sjá töluverðar verðhækkanir í flestum verslunum en oftast í Krónunni, Bónus, Fjarðarkaup og Hagkaup auk þess sem verð lækkar sjaldnast í þeim verslunum. Miklar verðlækkanir voru hins vegar hjá Iceland en í 85% tilfella lækkaði verð þar en í mörgum tilfellum er um verulegar verðlækkanir að ræða. Þá lækkaði verð einnig í mörgum tilfellum í Kjörbúðinni.
Í Hagkaup, Krónunni, Bónus og Fjarðarkaupum hækkaði verð oftast yfir 5% auk þess sem verðlækkanir voru færri en í öðrum verslunum eða í um 10% tilvika.
Athygli vekur að verð lækkar mikið í öllum vöruflokkum í Iceland milli mælinga og er algengt að verð lækki um um 15-20% og í einhverjum tilfellum enn meira. Í mörgum tilfellum lækkar verð einnig í Kjörbúðinni þó einstaka vörur hækki milli mælinga. Í Nettó og á Netto.is lækkar verð í um 40% tilfella en hækkar einnig töluvert í mörgum tilfellum. Svipaða sögu er að segja um Heimkaup.
Þurrvörur og dósamatur hækkar mest en mjólkurvörur lækka
Miklar verðhækkanir má finna í nær öllum vöruflokkum en í mörgum tilfellum lækkar verð einnig. Mestar verðhækkanir eru á brauði, kexi, snakki, pakkamat, bökunarvöru og öðrum þurrvörum ásamt dósamat og sósum en nokkuð algengt er að þessar vörur hækki um 10-20%. Þá hækka kjötvörur einnig í einhverjum tilfellum en standa í stað í öðrum tilfellum. Mestar hækkanir eru þó á ávöxtum og grænmeti og má í mörgum tilfellum sjá um eða yfir 50% verðhækkanir í þeim vöruflokki.
Þó finna megi dæmi um smávægilegar verðhækkanir lækka mjólkurvörur í verði í um helmingi tilfella. Drykkjarvara hækkar oftast lítið eða stendur í stað þó finna megi dæmi um miklar hækkanir á einhverjum vörum. Hreinlætisvörur lækka í verði í 45% tilfella og í einhverjum tilvikum nokkuð mikið en miklar verðhækkanir má þó einnig finna í þeim vöruflokki eins og öðrum. Sama má segja um verð á frosnum vörum sem lækkar í mörgum tilfellum þó verðhækkanir eigi sér einnig stað.
Hér sjá verðhækkanir milli tímabilanna. Hægt er að velja ólíka vöruflokka í fellilista töflunnar. Þá er einnig hægt að hlaða gögnunum niður.