Velferðarvaktin hefur afhent Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra skýrslu sína um stöðu efnalítilla barnafjölskyldna og þeirra sem búa við sára fátækt. Í skýrslunni er fjallað um stöðu þessara hópa og lagðar til úrbætur í sex þáttum sem ná til barnabóta og barnatrygginga, lágmarksframfærslu, húsnæðismála, grunnþjónustu, samhæfingaraðila máls og samvinnu við félagasamtök og verkefnasjóði.
Fulltrúi Alþýðusambandsins í vinnuhópnum lagði ríka áherslu á nauðsyn þess að stjórnvöld tryggi tekjulágum fjölskyldum húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Eins og ASÍ hefur ítrekað bent á undanfarin misseri býr fjöldi efnaminni heimila við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað og mikið óöryggi í húsnæðismálum. Stór hluti þessa hóps hefur ekki bolmagn til kaupa á húsnæði, ræður ekki við að greiða markaðsleigu og fær ekki aðgang að félagslegu húsnæði sveitarfélaganna.
Í skýrslu Velferðarvaktarinnar er m.a. lagt til að horft verði til tillagna sem ASÍ hefur sett fram um uppbyggingu á nýju félagslegu leiguíbúðakerfi og að stjórnvöld setji fjármagn í uppbyggingu á félagslegu húsnæðiskerfi sem geri lágtekjufólki kleift að búa við húsnæðisöryggi á viðráðanlegum kjörum.