Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir málstofu um ræstingar í húsakynnum sambandsins þann 20. nóvember sl. Til málstofunnar voru boðaðir formenn og starfsfólk aðildarfélaga SGS og sem og trúnaðarmenn sem starfa við ræstingar. Þrír fulltrúar fóru frá félaginu, þau Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður og Jóhanna Baldursdóttir starfsmaður hjá ISS. Reynt var að fá starfsmenn frá öðrum fyrirtækjum í þessum geira á svæðinu en það gekk ekki.
Á heimasíðu SGS kemur fram að markmið málstofunnar var að að leiða saman ólíka hagsmunaaðila innan greinarinnar og heyra þeirra sýn á stöðuna í ræstingum sem og þeirra framtíðarsýn. Jafnframt að leita eftir hugmyndum að breytingum á því fyrirkomulagi sem ríkir í atvinnugreininni sem og að skapa góðar og málefnalegar umræður um það sem betur má fara þegar kemur að þessari mikilvægu starfsstétt.
Nokkur afar fróðleg erindi voru flutt á málstofunni og bar þar hæst erindi frá Jóhönnu Guðmundsdóttur, ræstitækni hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Kristrúnu Agnarsdóttur, þjónustustjóra hjá ISS á Íslandi. Erindi þeirra beggja vöktu mikla athygli meðal gesta og þótti gestum einkar gagnlegt að fá að heyra þeirra sýn á stöðu mála innan greinarinnar. Á málstofunni fluttu einnig framkvæmdastjórar tveggja stærstu ræstingarfyrirtækja landsins, Guðmundur Guðmundsson frá ISS og Ari Þórðarson frá Hreint, erindi þar sem þeir fjölluðu um sína sýn á stöðu ræstinga á Íslandi ásamt því að varpa ljósi á framtíðarsýn sína innan greinarinnar. Bæði Guðmundur og Ari töluðu um virðingarleysi gagnvart ræstingarstarfinu og að brýnt væri að bæta ímynd greinarinnar. Einnig töluðu þeir báðir fyrir því að mikilvægt væri að auka menntun og fræðslu meðal ræstingarfólks og nefndu í því samhengi að kanna þyrfti vandlega hvort ekki væri grundvöllur að gera ræstingar að sér fagi og færa það inn í skólakerfið. Þá vakti athygli að bæði fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúar fyrirtækjanna lýstu áhyggjum af stöðu útboðsmála og sáu það sem sameiginlegt markmið að vandað sé til þeirra svo ekki komi til kjaraskerðingar fólks í greininni. Jafnframt greindi framkvæmdastóri Hreint frá því að eitt aðaláhyggjuefnið væru lág laun í ræstingum.
Eftir hádegi fór fram hópavinna þar sem þátttakendum var skipt upp í hópa sem fjölluðu svo um nokkur af þeim málum sem ber hvað oftast á góma þegar talið berst að ræstingum. Má þar á meðal nefna ímynd starfsins, kaup og kjör, mennta- og fræðslumál og útboðsmál. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust í hópavinnunni og munu niðurstöður hennar vafralaust koma til með að nýtast SGS og aðildarfélögum þess þegar fram líða stundir.