Vel heppnuð kvennaráðstefna

Mynd af vef ASÍ
Mynd af vef ASÍ

Hátt á fjórða tug kvenna frá ýmsum aðildarfélögum ASÍ komu saman á kvennaráðstefnu ASÍ, Hvað viltu upp á dekk?, sem haldin var á hótel Norðurljósum, nálægt Bláa lóninu, dagana 5. og 6. maí sl. Tveir fulltrúar frá Einingu-Iðju voru á þessari ráðstefnu, þær Anna Júlíusdóttir varaformaður og Guðrún J. Þorbjarnardóttir, svæðisfulltrúi í Hrísey.

Á vef ASÍ segir að markmið ráðstefnunnar hafi verið að efla konur í jafnréttisbaráttunni og styrkja tengslanet kvenna innan ASÍ þvert á aðildarfélög. Þema ráðstefnunnar var VALD og nokkrar fræðikonur sem skoðað hafa vald með „kynjagleraugum“ sögðu frá rannsóknum sínum. Erindin og fræðslan var síðan nýtt í hópavinnu síðari daginn sem skilaði sér í ályktun sem send verður miðstjórn ASÍ.

Allar konurnar sem þátt tóku í Dekkinu 2014 voru sammála um að ráðstefnan hafi verið einstaklega vel heppnuð og hvatning til kvenna að taka virkan þátt í félagsstarfi og efla hlut sinn í nefndum og ráðum innan ASÍ. Allar voru þær sammála um nauðsyn sérstakra kvennaráðstefna fyrir konur innan ASÍ og eru allar konur hvattar til að mæta þegar blásið verður til Dekksins 2015.