Vel heppnaður fundur um upplýsinga- og kynningarmál

Þann 11. maí sl. boðaði starfshópur um upplýsinga- og kynningarmál til samráðsfundar með þeim aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar sem starfa við málaflokkinn. Rúmlega 30 manns víðs vegar að af landinu mættu á fundinn sem var afar áhugaverður og vel heppnaður, m.a. Ásgrímur Örn Hallgrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins.

Í upphafi fundar fór Snorri Már Skúlason deildarstjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá ASÍ yfir Klukk og þær góðu viðtökur sem tímaskráningarappið hefur fengið síðan það var sett í loftið í febrúar sl. Nú hafa um 9.500 sótt sér Klukk og er almennt gerður góður rómur að appinu. Nú er í gangi vinna við fyrstu uppfærslu á Klukk en í henni verður hægt að skrá launagreiðanda án kennitölu auk þess sem tímaskýrslan verð bætt.

Andrés Jónsson almannatengill hélt erindi um mikilvægi samfélagsmiðla í nútíma fjölmiðlun auk þess sem hann ræddi lítillega um krísustjórnun. Hann benti t.d. á að stærstur hluti lesturs á stærstu fréttamiðla landsins kemur í dag af Facebook. Það eitt sýnir mikilvægi þess að nálgast fólkið á Facebook því fjöldinn er ekki að fara á heimasíður nema það eigi þangað sérstakt erindi, t.d. í upplýsingaleit. Hann sagði erfitt að ná í gegn í áreiti nútímans – og rétt sé að hafa í huga að það sem er fyrirsjáanlegt er leiðinlegt. Fólk hefur lært að „filtera“ út hverju það veitir athygli og hverju ekki, benti Andrés á. Þegar svo mikið er í boði er enn meiri þörf á að skera sig úr. Þar kemur myndræn framsetning sterk inn. Andrés lagði áherslu á að nota myndir og hafa líf í þeim – það kostar meira að fá ljósmyndara á svæðið en það getur margborgað sig. Myndir segja sögur og það þarf að leggja áherslu á að hugsa sjónrænt.

Birgir Guðmundsson dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri var síðasti fyrirlesarinn en hann hafði breytt umhverfi fréttamanna sem útgangspunkt í sínu erindi. Birgir ræddi almennt um breytingar á fjölmiðlum síðustu 10-15 árin, m.a. umbreytinguna frá gamla flokksmiðlakerfinu yfir í markaðsmiðlunarkerfi. Hann kom inn á starfsemi ritstjórna og breytingu á áherslum í efnisvali, vinnutilhögun og starfsumhverfi blaða- og fréttamanna. Þá fjallaði Birgir um atriði sem vert er að hafa í huga í samskiptum við blaða- og fréttamenn.

Eins og fyrr sagði sóttu rúmlega 30 manns fundinn og sköpuðust líflegar umræður að loknum erindunum þremur. Samráðs- og fræðsluvettvangur sem þessi er greinilega kominn til að vera innan þess hóps verkalýðshreyfingarinnar sem sér um upplýsingar- og kynningarmál.