Árlegur fræðsludagur Einingar-Iðju fyrir trúnaðarmenn, starfsmenn og aðra sem eru í trúnaðarstörfum fyrir félagið fór fram í gær, mánudaginn 23. aprí. Þetta er í tíunda sinn sem félagið heldur fræðsludag sem þennan, en í ár fór hann fram í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit. Um 100 félagar tóku þátt í deginum sem tókst í alla staði mjög vel, en dagskráin var blanda af fyrirlestrum og hópavinnu.
Eddu Björgvinsdóttur leikkona byrjaði dagskrá með mjög góðu erindi sem hún kallaði Húmor og gleði á vinnustað – dauðans alvara. Næst í pontu steig Eyrún Halla Eyjólfsdóttir, þjónustufulltrúi hjá félaginu, og sagði frá ferlinu hjá Einingu-Iðju við vinnu mála er koma inn á borð félagsins. Fjölmargar fyrirspurnir komu úr sal og urðu úr góðar umræður um málefnið.
Eftir léttan hádegisverð var komið að Drífu Snædal, framkvæmdstjóra Starfsgreinasambands Íslands, en hún fjallaði um Metoo og verkalýðshreyfinguna. Að loknu erindi Drífu var komið að Braga Bergmann og erindi hans Samræða og samskipi. Næst fjölluðu Eyrún Halla og Hafdís E. Ásbjarnardóttir, lögfræðingur og þjónustufulltrúi hjá félaginu, um ráðningasamninga og gildi þeirra.
Öll erindi dagsins voru alveg frábær og þakkar félagið fyrirlesurunum fyrir þeirra framlag til fundarins.
Síðasti dagskrárliðurinn var hópavinna, en þá var öllum skipt upp í hópa þar sem teknar voru fyrir tvær spurningar. Í þeirri fyrri var spurt um hvað eigi að leggja áherslu á í næstu kjarasamningaviðræðum og í þeirri seinni var kannaður vilji fundarmanna hvort félagið eigi að vera í samfloti með öðrum eða vera eitt og sér í næstu kjarasamningaviðræðum. Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ og Skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu, hafði yfirumsjón með hópavinnunni.
Frábær dagur með frábæru fólki!