Vel heppnaður fræðsludagur

Árlegur fræðsludagur Einingar-Iðju fyrir trúnaðarmenn, starfsmenn og aðra sem eru í trúnaðarstörfum fyrir félagið fór fram í gær, miðvikudaginn 10. maí. Í ár var dagurinn haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. Um 100 félagar tóku þátt í deginum sem tókst í alla staði mjög vel, en dagskrá dagsins var blanda af fyrirlestrum og hópavinnu.

Fyrir hádegi mættu á svæðið tveir spunaleikara úr leikhópnum Improv Ísland, Dóra Jóhannsdóttir og Saga Garðarsdóttir. Þær byrjuðu á að halda fyrirlestur um spuna, sýndu nokkrar spunaæfingar og létu svo fundargesti taka þátt í nokkrum skemmtilegum atriðum. Óhætt er að segja að þetta atriði hafi vakið mikla kátínu meðal fundargesta.

Næst í pontu steig Hafdís E. Ásbjarnardóttir, lögfræðingur og þjónustufulltrúi hjá félaginu, og kynnti niðurstöður könnunar sem gerð var á meðal trúnaðarmanna félagsins í lok síðasta árs. Í könnuninni, sem innihélt 25 spurningar, var spurt um upplifun trúnaðarmanna á starfinu og baklandi þeirra hjá félaginu. Boðað var til 10 funda með trúnaðarmönnum þar sem könnunin var lögð fyrir í upphafi þeirra. Svo var þeim skipt upp í minni hópa þar sem fjórar spurningar voru lagðar fyrir þá. Alls mættu 101 trúnaðarmenn á fundina og er óhætt að segja að félagið megi vera mjög ánægt með niðurstöðu könnunarinnar. Fjallað verður um könnunina hér á síðunni á næstu dögum.

Eftir léttan hádegisverð var Heiða Þorsteinsdóttir, sjúkraþjálfari hjá Eflingu, með mjög fróðlegt erindi um líkamsbeitingu. og Hjalti Jónsson sálfræðingur var með gott erindi sem bar nafnið Kvíði, streita, þunglyndi - Hvað er til ráða?

Að þessu loknu fjallaði Anna Júlíusdóttir, varaformaður félagsins, um fræðslusjóðina sem félagið er hluti af. Hún minnti á hvaða nám þeir væru að styrka og eins sagði hún m.a. frá hve mikið félagsmenn hefðu fengið úr sjóðunum á síðasta ári.

Síðasti dagskrárliðurinn var hópavinna, en þá var öllum skipt upp í hópa þar sem teknar voru fyrir tvær spurningar sem snerust um unga fólkið. ASÍ. Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ og Skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu, hafði yfirumsjón með hópavinnunni. Hvað getum við gert til að vekja áhuga ungs fólks á okkur var umfjöllunarefni dagsins. Í fyrri umferðinni var unnið með spurninguna Hvað eigum við að gera? Í seinni umferðinni var velt upp spurningunni hvernig félagið geti nálgast þennan hóp. Fjölmörg góð svör og ábendingar komu út úr þessari vinnu.

Frábær dagur með frábæru fólki!