Síðastliðinn vetur var gerð könnun innan aðildarfélaga ASÍ á réttarstöðu eldri félagsmanna og þeirra sem hverfa af vinnumarkaði vegna örorku. Megin niðurstöður voru þær að þeir njóta að meginstefnu félagslegra réttinda (réttur til áhrifa) og annarra réttinda í í félögum sínum og sjóðum þeirra eftir að látið er af störfum.
Í meginatriðum voru niðurstöður eftirfarandi:
- Aldraðir og öryrkjar eiga aðild að 91% aðildarfélaga þar sem 98% allra félagsmanna ASÍ eiga aðild. Í 87% þeirra aðildarfélaga þar sem eru 95% félagsmanna eru greiða þessir félagsmenn ekki félagsgjöld.
- Aldraðir eru kjörgengir í 40% aðildarfélaga þar sem eru 48% félagsmanna og með atkvæðisrétt í 51% aðildarfélaga þar sem eru 77% félagsmanna.
- Öryrkjar eru kjörgengir í 49% aðildarfélaga þar sem eru 56% félagsmanna og með atkvæðisrétt í 51% aðildarfélaga þar sem 83% félagsmanna eru.
- Í 51% félaga með 55% félagsmanna njóta aldraðir réttar í sjúkrasjóði (umfram dánarbætur) en að jafnaði tæmist réttur til styrkja á tilteknum tíma eftir að greiðslu iðgjalda er hætt. Í 49% félaga með 45% félagsmanna er einungis réttur til dánarbóta.
- Í 51% aðildarfélaga með 56% félagsmanna njóta öryrkjar réttar í sjúkrasjóði (umfram dánarbætur) en að jafnaði tæmist réttur til styrkja á tilteknum tíma eftir að greiðslu iðgjalda er hætt. Í 49% félaga með 44% félagsmanna er einungis réttur til dánarbóta.
- Aldraðir og öryrkjar í 93% aðildarfélaga með 99% félagsmanna njóta sem næst fullra réttinda í orlofsheimilasjóði en safna þó ekki stigum þar sem þau eru notuð.
- Aldraðir í 35% félaga með 48% félagsmanna njóta réttar í öðrum sjóðum (aðallega fræðslusjóði) meðan öryrkjar í 35% félaga með 75% félagsmanna njóti þeirra sömu réttinda.
Þátttaka í könnuninni var góð en svör bárust frá 43 af 49 aðildarfélögum. Í þeim 43 félögum eru 99% félagsmanna ASÍ.