Vaxandi ójöfnuður á vesturlöndum er áhyggjuefni

Fram kemur á heimasíðu ASÍ að á síðustu árum hafa augu fræðasamfélagsins og alþjóðastofnana beinst í auknum mæli að vaxandi ójöfnuði innan þróaðra ríkja. Þessi þróun hefur verið sýnileg beggja vegna Atlantshafsins en alþjóðlega efnahagskreppan varð þó til að hægja á henni tímabundið sem skýrist m.a. af því hversu mikið af auði tapaðist hjá hinum tekjuhæstu við efnahagshrunið. Á Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi, mælist ójöfnuður lítill í alþjóðlegu samhengi en á árunum fyrir hrun fór hann engu að síður vaxandi. Norðurlöndin hafa þannig ákveðna sérstöðu, jöfnuður er og hefur verið mikill þar í samanburði við önnur OECD ríki en án þess að það hafi orðið til þess að draga úr hagvexti eða lífskjörum á Norðurlöndunum.

 

 

Heimild: OECD

Mynd 1: Ójöfnuður í völdum OECD ríkjum, 2011 (Gini).
Mynd 2: Ójöfnuður á Íslandi eftir skatt og bótagreiðslur, 2004-2013 (Gini).
Mynd 3: Ójöfnuður í völdum OECD ríkjum, á árunum 1981-1985 og á árinu 2011 (Gini).

Eins og sést á mynd 3 hefur þróunin verið til aukins ójafnaðar á síðustu áratugum. Sérstaka athygli vekur þó þróunin á Norðurlöndum en þar hefur dreifing tekna færst nær því sem þekkist á meginlandi Evrópu. Það er þessi vaxandi ójöfnuður sem ollið hefur stjórnmálamönnum, fræðimönnum og alþjóðastofnunum áhyggjum. Meðal annars hefur Christina Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varað við þróuninni[1] og bent á hvernig tekjur hinna 1% ríkustu hafa vaxið umfram aðra í 24 af þeim 26 löndum sem sjóðurinn hefur yfirsýn yfir. Ennfremur hefur hún bent á hvernig tekjur hinna 85 ríkustu séu þær sömu og samanlagðar tekjur tekjulægri helmings mannfjöldans. Janet Yellen, seðlabankastjóri í Bandaríkjunum hefur lýst sömu áhyggjum og bent á að síðustu áratugir einkennist af vaxandi auði hinna ríkustu á meðan lífskjör alls almennings hafi staðið í stað[2].

Það er vert að hafa áhyggjur af þessum vaxandi ójöfnuði enda vísbendingar um að þróunin hafi ekki einungis neikvæð áhrif á pólítískan stöðugleika og félagslegan hreyfanleika, heldur geti hún haft neikvæð áhrif á hagvöxt en á þetta er bent í nýlegum skýrslum IMF og OECD[3]. Niðurstöðurnar benda til þess að minni ójöfnuður sé ekki bara pólítískt mál heldur hafi einnig bein áhrif á hagvöxt, efnahag og lífskjör framtíðar. 

 

[1] Sjá ávarp: https://www.imf.org/external/np/speeches/2014/052714.htm

[2] Sjá ræðu: http://www.federalreserve.gov/newsevents/speech/yellen20141017a.htm

[3] Sjá skýrslu IMF, Redistribution, Inequality and Growth, febrúar 2014 og skýrsludrög OECD, Trends in Income Inequality and its Impact on Economic Growth, desember 2014.