Góðir gestir frá sjálfeignarstofnuninni Ekon í Varsjá sóttu VIRK Starfsendurhæfingarsjóð heim nýverið en
sjálfseignarstofnunin vinnur að því að skapa og finna störf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í Póllandi.
Gestirnir leiða teymi sem undirbýr opnun greiningarstöðvar í Varsjá, þá fyrstu þar í landi, og heimsóttu Virk til að kynna
sér starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins og þá sérstaklega matsferlið sem VIRK hefur þróað. Matsferlið hefur vakið mikla
athygli erlendra fagaðila enda VIRK með allra fyrstu stofnunum á þessu sviði til að tileinka sér ICF (International Classification of Function -
alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu gefnu út af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO) á þennan
hátt.
Auk þess að kynna sér starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins þá fóru gestirnir einnig í stuttar heimsóknir til samstarfsaðila
VIRK á Reykjalundi, í Tryggingastofnun og til Vinnumálastofnunar þar sem þau fengu mjög góðar viðtökur.
Sjá nánar í frétt á virk.is