Dagana 20. og 21. maí mun Starfsgreinasambandið halda formannafund á Sel-Hótel í Mývatnssveit. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Björn Snæbjörnsson formaður og Gunnar Magnússon, ritari félagsins, munu sitja fundinn fyrir hönd félagsins.
Óhætt er að segja að um langþráðan fund sé að ræða, en sökum samkomutakmarkana hefur SGS þurft að fresta fundinum í tvígang, en hann átti upphaflega að fara fram fyrir um ári síðan.
Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir. M.a. umræður um styttingu vinnutímans, kynningu frá Vörðu um stöðu félagsmanna SGS og erindi frá Þekkingarneti Þingeyinga og ríkissáttasemjara. Þá verða ársreikningar og önnur rekstrarmál SGS til umfjöllunar á fundinum.