Föstudaginn 3. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af þrjár ferðum félagsins á næsta ári, m.a. utanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr utanlandsferðinni sem farin var sl. sumar. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári.
Það var fjölmennur hópur Einingar-Iðju félaga sem lagði af stað í rútu frá Skipagötu 14, föstudaginn 9. ágúst 2019 til Keflavíkur. Einhverjir fóru á einkabílum og sameinaðist hópurinn í Keflavík um kvöldið. Daginn eftir var förinni heitið til Þýskalands, nánar tiltekið Munchen.
Laugardagur 10.ágúst
Eftir þægilegt flug var lent í Munchen þar sem Harpa Hallgrímsdóttir leiðsögumaður og eiginmaður hennar, Kristinn Ólafsson, tóku á móti hópnum. Létt var yfir fólki enda tók Munchen á móti okkur með fallegu hlýju veðri, en hitinn átti eftir að aukast þegar líða fór á ferðina. Zell am See í Austurríki var næsti áfangastaður, fallegur bær í 750 metra hæð yfir sjávarmáli. Staðurinn er vinsæll ferðamannastaður á veturna, en þó æði gaman að koma þangað að sumri til. Zellervatnið skartaði sínu fegursta, hvort sem fólk nýtti sér gönguleiðir eða hjólaði meðfram vatninu.
Sunnudagur 11.ágúst
Næsti áfangastaður var Opatija í Norður-Króatíu, en Opatija er lítill strandbær við Kvarnerflóa. Fallegar gönguleiðir eru við strandlengjuna, en þar sem hitinn hafði enn hækkað kældu sumir sig með því að skella sér í sjóinn. Aðrir nýttu sér hina fjölmörgu veitingastaði til að kæla sig niður eftir góða göngu um þennan fallega strandbæ.
Mánudagur 12.ágúst
Eftirvænting var í hópnum þegar haldið var af stað til Biograd na Moru á Dalmatíuströndinni við Adríahafið, þar sem dvelja átti í fimm nætur. Bærinn tók vel á móti okkur og staðsetning hótelsins var mjög góð, aðeins nokkra metra frá ströndinni. Margir hugsuðu sér gott til glóðarinnar og voru ekki lengi að finna sér bekk á ströndinni og gleypa í sig sólina.
Þriðjudagur 13.ágúst
Upp rann virkilega góður dagur til að slaka á og rölta um þessa fornu höfuðborg króatíska konungsveldisins á miðöldum. Sumir kíktu í búðir og gerðu reifarakaup, aðrir tóku sundsprett í Adríahafinu og sleiktu sólina.
Miðvikudagur 14.ágúst
Næst stærsta borg Króatíu, Split, var áfangastaður dagsins en auk þess var farið til Trogir, sem er gömul hafnarborg. Split tók á móti okkur með glaða sólskini og hlýju veðri. Hópurinn stoppaði í Split í stutta stund áður en farið var með ferju til Trogir. Þar sýndi fararstjórinn Björn Snæbjörnsson ásamt Hörpu leiðsögumanni mikla útsjónarsemi með því að fara strax að landgangi ferjunnar til að tryggja hópnum sæti í ferjunni. Það var margt um manninn við landganginn, en þar sem Björn og Harpa voru búin að tryggja okkur far með ferjunni þá komust allir um borð. Kallað var um borð með hinu eina sanna íslenska „HÚ“ við mikla undrun annarra farþega. Siglingin til Trogir tók skamma stund og það var virkilega gaman að skoða þessa borg sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Fimmtudagur 15.ágúst
Eftir góðan morgunverð á hótelinu í Biograd na Moru var haldið stað til borgarinnar Zadar. Enn og aftur var veðrið upp á sitt allra besta og var tilvalið að ganga eftir strandlengjunni og drekka í sig menningu og byggingar þessarar fallegu borgar. Byggingar í borginni eru margar hverjar í rómverskum og feneyskum stíl. Hluti hópsins nýtti sér þær mörgu góðu verslanir sem Zadar býður upp á, en auðvelt var að svala þorstanum á mjög svo góðum veitingastöðum og börum sem voru svo að segja við hvert fótmál.
Föstudagur 16.ágúst
Nú var dagurinn tekinn snemma, á dagskránni var ferð í þjóðgarðinn í Krka. Ekki er hægt að segja annað en þessi gimsteinn Dalmatíuhéraðs hafi staðið undir því nafni. Náttúrufegurð svæðisins er einstök, vatnasvæðið og fossar við hvert fótmál sem tengjast ánni Krka. Að ganga gegnum þjóðgarðinn eftir þar til gerðum göngustígum var upplifun fyrir sig og ekki skemmdi hinn fjölbreytilegi gróður fyrir, en talið er að í þjóðgarðinum megi finna allt að 800 gróðurtegundir.
Laugardagur 17.ágúst
Við kvöddum Biograd na Moru og héldum til Bled í Slóveníu. Það var alveg magnað hve vel gekk hjá hópnum að fara milli landa, lítið um tafir á landamærum. Það breyttist þó aðeins þegar við nálguðumst landamæri Króatíu og Slóveníu, þar sem allt var íhægagangi,góð bíla- og rútulest liðaðist hægt áfram, það var hreinlega eins og landamæraverðir Króatíu vildu ekki að fólk færi úr landi. Eftir þriggja klukkustunda bið vorum við Norðlendingarnir komnir fremst í röðina, en þá kom Harpa leiðsögumaður því til skila að við værum frá Íslandi, og við runnum yfir landamærin eins og heitur hnífur gegnum smjör. Eftir þetta gekk allt snuðrulaust fyrir sig, og stefnan tekin á Bled, sem liggur í 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þvílík fegurð blasti við þegar við komum til Bled, en bærinn er perla Slóveníu, og þangað koma jafnt ferðamenn og heimamenn til að njóta fegurðarinnar. Bærinn liggur við Bledvatnið með sínum undurgræna lit og fjallasýnin er einstök þar sem kastali nokkur gnæfir yfir nágrennið.
Sunnudagur 18.ágúst
Við morgunverðarborðið var greinileg eftirvænting í hópnum fyrir að skoða nánasta umhverfi Bledvatnsins. Veðrið lék við hvern sinn fingur og margir fóru út í litlu eyjuna í Bledvatninu þar sem ægifögur kirkja er, en þar er til siðs að hringja kirkjuklukkunni og um leið óska sér einhvers. Róleg gönguferð í kringum Bledvatnið er líka algjörlega ómissandi, en hægt er tylla sér niður og horfa á iðandi mannlífið og svala þorsta sínum. Margir úr hópnum réðust til atlögu við þær 431 tröppu sem þarf að klífa til að komast upp í kastalann, en þegar upp var komið sveik útsýnið yfir Bled og nærsveitir ekki. Bled er einstakur staður og ekki annað hægt en að mæla með að fólk gefi sér tíma til skoða þennan fallega stað.
Mánudagur 19.ágúst
Við kvöddum Bled í glaða sólskini og stefndum til Munchen. Við vorum komin tímanlega á hótelið í Munchen, en það var í einu úthverfi borgarinnar. Margir hugsuðu sér gott til glóðarinnar að kíkja í verslanir, en því miður var ekki mikið um þær á svæðinu. Í göngufæri frá hótelinu var þó þessi fíni súpermarkaður þar sem fólk gat svalað verslunarþörf sinni, en þó aðallega í formi súkkulaðis.
Þriðjudagur 20.ágúst
Þennan heimferðardag var örlítill kærkominn rigningarúði. Brottför frá flugvellinum í Munchen kl. 14.05, og lent í Keflavík kl. 16.00. Ferðalagið gekk snuðrulaust fyrir sig og okkar beið rútuferð frá Keflavík norður til Akureyrar. Rútuferðin var notuð til að rifja upp það sem á daga okkar hafði drifið í ferðinni. Íslenska landslagið er fagurt og alltaf gott að koma heim, en eftir ferðina sitja í manni minningar um fallegt landslag, fagra fjallasýn og skógi vaxnar hlíðar sem vissulega er ólíkt því sem við eigum að venjast á landinu okkar bláa. Því verður þó ekki neitað að hvort tveggja er fallegt á sinn hátt.
Þankar að endingu
Rútuferðirnar voru ófáar þessa daga en þær reyndust hin besta skemmtun þar sem margar sögur og vísur runnu upp úr ferðafélögunum og ekki má gleyma fjöldasöng sem stjórnað var af Möggu Kristínu Björnsdóttur. Óhætt er að segja að okkur nýgræðingunum í ferðinni þótti skipulag ferðarinnar mjög gott. Vert er að þakka leiðsögufólkinu okkar þeim Hörpu Hallgrímsdóttur og Kristni Ólafssyni fyrir góða leiðsögn og hjónunum Sveini Sigurbjarnasyni og Margréti Óskarsdóttur fyrir góða skipulagningu. Björn Snæbjörnsson hélt vel utan um hópinn svo allt gekk snuðrulaust fyrir sig. Ferðanefndin fær mikið hrós fyrir að skipuleggja góða ferð með ofangreindu fólki. Við hjónin þökkum kærlega fyrir okkur og vonandi auðnast okkur að fara fljótt aftur í ferð með Einingu-Iðju.
Takk fyrir okkur,
Auður Þorsteinsdóttir
Tryggvi Gunnarsson