Utanlandsferðin 2018 - ferðasaga

Fimmtudaginn 3. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af þrjár ferðum félagsins á næsta ári, m.a. utanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr utanlandsferðinni sem farin var sl. sumar til Austurríkis. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári. 

Ferð Einingar-Iðju til Austurríkis 2018 

Árla dags fimmtudaginn 9. ágúst mættu í flugstöð Leifs Eiríkssonar 49 félagsmenn Einingar-Iðju, makar og gestir þeirra á aldrinum 39 til 85 ára og var ferðinni heitið til Austurríkis. Á vellinum bættust í hópinn hjónin Sveinn og Margrét frá Tanna-Travel en Sveinn hefur löngum verið bílstjóri í ferðum Einingar-Iðju en var núna fríi. Hluti hópsins kom með rútu kvöldið áður og gisti B&B Guesthouse, aðrir komu á eigin vegum til flughafnarinnar. Eftir smá seinkun var skundað eftir landganginum um borð í Þingvöll en það var nafnið á Icelandair flugvélinni sem flaug með okkur til Munchen þar sem Harpa Hallgrímsdóttir leiðsögumaður tók á móti okkur. Þaðan var ekið meðfram þýskum maís- og kornökrum áleiðis til Zell am See í Austurríki, vinalegs bæjar með um 9.500 íbúa. Ferð sem tók rúmar fjórar klukkustundir með klukkustundar neysluhléi fyrir ferðalangana.

Zell am See stendur við samnefnt vatn sem er 4 km langt og 1,5 km breitt. Það er allt að 68 metra djúpt og er í 750 metra hæð yfir sjávarmáli. Á veturna frýs vatnið alveg og er notað til vetraríþrótta. Vatnið er mjög tært og hentugt fyrir sund eða köfun, en getur verið kalt. Harpa leiðsögumaður fræddi okkur um allt sem fyrir bar og var nákvæm og talnaglögg. Margt af þessu var merkilegt, jafnvel stórundarlegt og settist í minnið. Var þá fyrsta vísan í ferðinni til. 

Austurríki er í svo miklum halla

að ekki er hægt að brynna kúm í dalla.

Við fjallavötn er samfelld sæld og friður

68 km niður.

DHH

 

Föstudagurinn rann upp með þungbúnu veðri, lágskýað og rigning öðru hvoru og var fyrirhugaðri dagskrá frestað. Þess í stað var skroppið með kláf upp á Gasthof Mittelstation í 1.320 m hæð. Síðan var farið í siglingu um Zell am See vatnið. Zell am See er í raun tvö bæjarhverfi, það er gamli bærinn og Zell am See Súd þar sem við gistum á hótel Latini. Frjálsi tíminn var nýttur í gamla bænum og voru leigubílar eða strætó notaðir til að koma sér til baka á hótelið. All nokkrir tóku strætisvagninn og jók það heldur á öryggi manna að komast ætti klakklaust á leiðarenda þar sem Svenni sat aftan við bílstjórann. Samt sem áður varð þessi fimm mínútna ferð á milli bæjarhlutanna aðeins lengri en planað var. Vagninn ók um ókunnar slóðir og því var útsýnisins notið á meðan og eftir um klukkutíma akstur var stígið út úr vagninum á réttum stað og gengið heim á hótel. 

Á einu veitingahúsinu fengum við óvenjulegan súpudisk. 

Ég er ekki fyrir gálaust gisk,

gaman finnst mér stundum samt að pæla.

Ég fékk súpu í svo djúpan disk

að dýpið þyrfti Hörpu til að mæla.

DHH

 

Dagsferð var farin til menningarhöfuðborgarinnar Salzburg á laugardeginum. Salzburg er oft nefnd barokkborgin, Wolgang Amadeus Mozart var fæddur þar árið 1756. Á leiðinni var komið við í Arnarhreiðrinu, en það var Martin Bohrmann sem lét reisa húsið sem afmælisgjöf frá ríkinu til Hitlers á 50 ára afmæli hans. Um tíma hélt fólk, að húsið ætti að verða grafhýsi Hitlers. Líklega var það reist til að þjóna persónulegum duttlungum Bohrmanns. Hann var stöðugt að reyna að koma sér í mjúkinn hjá foringjanum. Bohrmann valdi tindinn Kehlsteins (1.834 m) sem byggingarstað. Þeim fannst líka mikið til útsýnisins af tindinum koma. 

Sunnudagurinn var notaður til að fara í kláfum upp á Kitzsteinhorn sem er í 3.029 metra hæð og stórfenglegs útsýnis notið. Síðan var ekið áleiðis að skiptistöð til að komast að virkjunarlóni í Kaprun sem er í 2.040 metra hæð. Eitthvað könnuðust sumir við leiðina enda sú sama og farin var í vagninum á föstudeginum. Farið var í kláf sem tók 185 manns og ekið um sjö jarðgöng að virkjunarlóninu. 

Harpa var ekki bara afburða leiðsögumaður, hún var einnig afskaplega hjálpsöm. Eitt sinn þurfti hópurinn á snyrtingu og var orðinn dálítið tæpur. Þarna var gjaldhlið og var tímafrekt að setja nákvæma upphæð í þrönga rifu til að fá aðgang. Harpa fór þá að hjálpa til og skammtaði líka fyrir menn í rifuna. 

Að hliðinu menn hópuðust í keng

og Harpa setti peninga í raufina

en fyrst á þeim sem fremstir voru í spreng

hún flýtti sér að opna buxnaklaufina.

DHH

 

Á mánudeginum var farið frá Zell am see áleiðis til Seefeld í Tíról. Á leiðinni var stoppað í Bierol í Schwoich hjá gestgjafanum Caroline Bichler. Staðurinn er vanalega lokaður á mánudögum en hún opnaði hann sérstaklega fyrir okkur með heitri gúllassúpu, þó heitt væri úti, og bjór. Heitið á bjórnum er Schwoicher Helles en þarna framleiða þeir alls átta mismunandi tegundir af bjór. Sá sem tók á móti okkur fyrst og spilaði fyrir okkur á harmóníku heitir Sebastian Eberbach og er stjórnandi karlakórsins í Schwoich sem heitir Sängerrunde Schwoich kórinn, en kórinn er 130 ára gamall. Síðan kom Martin Lengauer-Stockner (þessi með fallegu röddina) fyrrverandi formaður kórsins, en hann rekur eitt stærsta fyrirtækið í Schwoich. Hann bauð hópnum upp á perusnaps sem er 48% sterkur og agalega vondur að sumra mati. Síðan kom núverandi formaður kórsins Jóhann Harlander, kallaður Hansi, bassi í kórnum, og sungu þeir fyrir okkur nokkur lög. Loks kom Anne eiginkona Martins. Kveðjulagið sem Sebastian spilaði á harmonikuna var Gullnu vængir, en áður höfðum við ferðafélagarnir sungið Á sprengisandi. 

Þriðjudagurinn var notaður til dagsferðar til Innsbruck með viðkomu í Swarowski safninu. Fyrirtækið var stofnsett í Tíról árið 1895 en þeir eru stærstu skartgripaframleiðendur í heiminum í dag. Meðal þekktra einstaklinga sem hafa notað þeirra framleiðslu eru Michael Jackson, JLo, Beyonce, Katy Perry, Lady Gaga, Pink og Heidi Klum. 

Björn formaður stjórnaði öllu með röggsemi, fór fremstur og ruddi erfiðleikum úr vegi. Í bílnum var hann duglegur að rukka það sem hann sagðist hafa borgað fyrir okkur og safnaði þá í sekk. 

Enn man ég vorin með indæla for

er ösluðu leðjuna trukkar.

Í gólfinu á rútunni greina má spor,

þar gengur hann Bjössi og rukkar.

DHH

 

Farið var í stutta dagsferð á miðvikudeginum til Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi þar sem við skoðuðum m.a. skíðastökkpallinn sem keppt var á Vetrarólimpíuleikunum 1936. Eftir síðustu fimm rétta kvöldmáltíðina á hóteli St. Peter sem við gistum á í Seefeld kvaddi þjónninn okkur með mörgum fögrum orðum og bauð upp á snaps í kveðjuskini. 

Ólygnir sögðu söfnunarsekk Björns miklum mun þyngri við heimför en brottför frá Íslandi. 

Safnast menn í sumarfrí

með sína bestu vini.

Formaðurinn fór þó í

fjáröflunarskyni.

DHH

 

Hótelið var síðan yfirgefið snemma morguns fimmtudagsins 16. ágúst og haldið heim á leið með flugvélinni „Þingvellir“ og lentum við um kl. fjögur á Fróni. Ánægjuleg og góð ferð var þá á enda. 

Þetta hripaði á blað Þorsteinn E. Arnórsson. Um kveðskap sá Davíð Hjálmar Haraldsson.