Miðvikudaginn 3. janúar nk. verður byrjað að skrá í tvær af þrjár ferðum félagsins á næsta ári, m.a. utanlandsferðina. Því er við hæfi að setja hér inn ferðasöguna úr utanlandsferðinni sem farin var sl. sumar til Þýskalands og Luxemborgar. Hér má sjá hvaða ferðir eru í boði á næsta ári.
Utanlandsferðin sumarið 2017
Dagana 3. til 10. júní sl. ferðaðist fjölmennur hópur Einingar-Iðjufélaga til Þýkalands og Luxemborgar. Brynja Björk Pálsdóttir og Hafdís G. Pálsdóttir tóku að sér að rita ferðasöguna.
Það var 12 manna hópur sem lagði upp frá Skipagötu 14 föstudaginn 2. júní 2017, í rútu undir öruggri stjórn Björns Snæbjörnssonar og var förinni heitið til Keflavíkur. Sumir fóru á einkabílum svo hópurinn sameinaðist þar. Brottför úr húsi var áætluð kl. 5:10 á laugardagsmorgni.
Laugardagur 3. júní
Bjartur og fagur dagur. Hér munaði miklu að kvöldið áður var búið að fá töskumiða í flugstöðinni, svo innritun gekk vel. Lentum í Frankfurt kl. 11:05 að staðartíma í rigningu en fljótlega stytti upp og hiti um 20ºC. Þess skal getið að flugvöllurinn í Frankfurt er fjórði stærsti flugvöllur í Evrópu og íbúar Frankfurt eru um 660 þúsund. Á flugvellinum tóku góðir vinir á móti hópnum, þau Svenni, Magga og Harpa fararstjóri.
Ekið var áleiðis í Moseldalinn, um 2 klst. akstur til Bernkastel-Kues, og komið á Hótel Moselpark kl. 17:30 í skýjuðu veðri og 25ºC hita. Þar gistum við næstu 5 nætur. Hér var hluti hópsins „að koma heim“ - búinn að dvelja þarna nokkrum sinnum áður og þau voru orðin býsna staðkunnug.
Sunnudagur 4. júní - Cochem
Eftir góðan morgunverð var farið af stað kl. 9:30 áleiðis til Cochem sem stendur á bökkum Mósel og stoppað til kl. 15:00 og hiti kominn í 25ºC. Flestir fóru í kláf þar sem gefur að líta útsýni yfir bæinn, ána, kastala o.fl. Hér eru skemmtilegar þröngar götur og margir sölumenn sem allt vildu fyrir okkur gera.
Mánudagur 5. júní -Lúxemborg
Góður dagur í vændum. Ókum í 1,5 klst. til Lúxemborgar þar sem íslenskur leiðsögumaður, Óskar Bjarnason, tók á móti hópnum og stiklaði á stóru um sögu borgarinnar. Skoðuðum kirkjur og nutum þessa fallega gamla bæjar, en hann er á heimsminjaskrá UNESCO.
Þriðjudagur 6. júní
Frjáls dagur í Bernkastel-Kues, en hann er einn af vinsælustu ferðamannastöðum við Móselána. Bæirnir tveir sem standa hvor sínum megin við ána eru eitt elsta svæði þýskrar vínræktar við Mósel. Þar ákvað hópurinn að fara í lestarferð um bæinn og vildi svo vel til að akkúrat meðan á þeirri ferð stóð gerði úrhelli. Eftir lestarferð stytti fljótlega upp og nutum við þess að ganga um þröngar götur, skoða í búðir og nærast. Allt útlit var fyrir að aftur færi að rigna svo ákveðið var að fara í 2ja tíma siglingu á Mósel og við yrðum sótt á endastöð. Í þessari siglingu var farið í skipalyftu og var gaman að fylgjast með því ferli. Þegar komið var á hótel var komið glaðasólskin en hvasst.
Miðvikudagur 7. júní - dagsferð til Trier
Stoppað við Pálskirkju, fallegt og stílhreint guðshús, ótrúlegar myndir í lofti kirkjunnar. Farið á útsýnispall þar sem hægt var að horfa yfir borgina og hefði örugglega verið gaman ef ekki hefði rignt. Síðan var farið að borgarhliðinu „Porta Negra“ eða Hliði borgarinnar. Þar var frjáls tími til kl. 15:20, þá áttu allir að hittast við hliðið og fara í rútuna því nú átti að halda í vínsmökkun. Þar hittu Bjössi, Svenni og Magga gamlan kunningja sem vínbóndinn var. Fórum í vínkjallarann og smökkuðum á framleiðslu hans. Þetta er fimmti ættliður vínbónda á staðnum og er hann með 9 hektara lands, þar af eru 6 hektarar véltækir. Fengum við fróðleik um alla vinnuna sem þarf að vinna áður en uppskeran verður að dásamlegu hvítvíni.
Fimmtudagur 8. júní - Hótel Moselpark kvatt
Ekið til Koblenz, en þarna mætast Rín og Mósel við „Þýska hornið“ þar sem Mósel fellur í Rín. Þarna var Bjössi myndaður í bak og fyrir með elstu ferðafélögunum, þeim Jóhönnu og Þórveigu. Eftir frjálsan tíma var haldið áleiðis til Rudesheim, ekið eftir Rínardal og upp að útsýnisstað þar sem var stytta af Loreley og þaðan gott útsýni niður yfir Rín. Komum á hótelið okkar Parkhotel Rudesheim þar sem við gistum síðustu 2 nætur ferðarinnar.
Þeir sem voru sjóaðir og ekki að koma þangað í fyrsta skipti voru ánægðir með að fá herbergi baka til en ekki að framan, þar sem lestarteinar eru fyrir framan hótelið og endalausar vöruflutningalestir á ferðinni allan sólarhringinn. Við töldum í einni runu upp undir 40 vagna á lest, mikið flutt af nýjum bílum. Þarna gafst okkur tækifæri að smakka ekta Rudesheim-kaffi, framreitt með tilþrifum og leiðsögn. Í þessum bæ er fallegt gamalt hverfi sem iðar af lífi fram eftir kvöldum og er gaman að ganga þar um, má meðal annars nefna þröngu götuna Dresselgasse eða Þrastargötu.
Föstudagur 9. júní
Þá var komið að siglingu á Rín sem er lengsta á Evrópu. Engin brú er yfir ána svo mikið er um bílferjur og jafnframt miklir vöruflutningar um ána.
Siglingin tók um 5 klst. og var siglt að Loreley styttunni sem er þar á tanga í ánni og snúið við þar rétt fyrir neðan. Ekki þótti okkur styttan merkileg að sjá, hér hefði hreinlega verið hægt að missa af því að sjá hana ef maður væri ekki sérstaklega að horfa eftir henni.
Þegar komið var til baka í rútuna var ekið upp að minnismerkinu „madam Germany“ þar uppi var útsýni til allra átta. Þegar haldið var til baka var hægt að velja um að fara með rútunni, ganga eða taka kláf sem gekk á milli.
Nú var komið að síðasta kvöldverðinum í ferðinni. Harpa fararstjóri var búin að panta sæti fyrir hópinn á bar/restaurant/dans í Dresselgasse (Þrastargötu) þar sem aðalfjörið er á kvöldin með lifandi tónlist á öllum veitingastöðum.
Laugardagur 10. júní – lagt af stað heim
Þegar við nálguðumst flugvöllinn þá upplýsti Harpa okkur um það að íbúar Frankfurt, sérstaklega þeir sem búa í nágrenni vallarins, hafi verið mjög hamingjusamir þegar gos var í Eyjafjallajökli því lítil sem engin flugumferð var á þeim tíma svo það var til þess að gera friður og ró.
Farið var í loftið kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:30. Farið frá Leifsstöð kl. 17:00 í sólskini og blíðu. Hluti hópsins eins og áður í rútu sem Bjössi ók, komið til Akureyrar um miðnætti.
Þetta var góður og samheldinn hópur. Strax fyrsta morgun ítrekaði Bjössi að hér væri stundvísi í fyrirrúmi. Enda var það svo að flesta morgna var rútan farin af stað frekar fyrir áætlaðan brottfarartíma en seinna.
Takk fyrir skemmtilega ferð
Brynja Björk Pálsdóttir
Hafdís G. Pálsdóttir