Upplifun trúnaðarmanna á starfinu og félaginu

Hér má sjá nokkrar niðurstöður könnunar sem gerð var á meðal trúnaðarmanna félagsins í lok síðasta árs. Í könnuninni, sem innihélt 25 spurningar, var spurt um upplifun trúnaðarmanna á starfinu og baklandi þeirra hjá félaginu. Boðað var til 10 funda með trúnaðarmönnum þar sem könnunin var lögð fyrir í upphafi þeirra. Svo var þeim skipt upp í minni hópa þar sem fjórar spurningar voru lagðar fyrir þá. Alls mættu 101 trúnaðarmenn á fundina og er óhætt að segja að félagið megi vera mjög ánægt með niðurstöðu könnunarinnar.

Það kom m.a. fram í niðurstöðunum að nýkjörnir trúnaðarmenn, sem komast ekki á námskeið strax, finnist þeir vera í lausu lofti og viti lítið um hvað starf trúnaðarmanns snúist. Því ákvað stjórn félagsins að halda fundi nokkrum sinnum á ári með nýkjörnum trúnaðarmönnum til að ræða um störfin, réttindi og skyldur trúnaðarmanna og ýmislegt sem upp kann að koma á vinnustöðum. Búið er að halda einn slíkan fund og tókst hann mjög vel.

Nokkrar niðurstöður:

  • Þegar spurt var hvernig viðkomandi liði sem trúnaðarmanni sögðu 75% vel, 23% sögðu sæmilega en enginn sagði illa. Þetta má teljast mjög gott þar sem ljóst er að mikilvægi trúnaðarmanna er mikið bæði fyrir félagið og félagsmenn þess.
  • 73% sögðust vera tilbúin til að gefa kost á sér aftur eftir að kjörtímabilinu lýkur og var m.a. nefnt að það væri vegna þess að þetta væri skemmtilegt og fróðlegt. Flestir þeirra sem svöruðu þessu neitandi töldu að tímabært væri að leyfa öðrum að spreyta sig eða væru búin að vera lengi trúnaðarmenn.
  • 81% telja að vinnufélagar skilji hlutverk trúnaðarmanns. Þeir sem svöruðu þessu neitandi töldu það vera vegna þess að vinnufélagar ætlast til of mikils af þeim og að þeir séu eins og alfræðiorðabók um leið og kosning færi fram.
  • 88% sögðu að vinnufélagarnir standi við bakið á sér sem trúnaðarmanni.
  • Spurðir um hvort vinnufélagarnir væru óþolinmóðir í sinn garð sem trúnaðarmaður sögðu 93% nei og er það mjög ánægjulegt.
  • 90% sögðu að yfirmenn væru jákvæðir gagnvart starfi sínu sem trúnaðarmaður og einnig þegar spurt var: Færð þú tíma til að sinna starfi þínu sem trúnaðarmaður?
  • 99% gerðu sér grein fyrir því að trúnaðarmaður væri bundinn trúnaði yfir öllu sem viðkomandi kemst að bæði ganvart fyrirtækinu og vinnufélögum. Mjög ánægjulegt var að sjá niðurstöður þessarar spurningar þar sem trúnaður er horsteinn starfs trúnaðarmanns, bæði hvað varðar starfsmanninn og einnig gagnvart fyrirtækinu til þess að skapa gott samband allra aðila.
  • 5% sögðu að þeim hefði verið bannað að sinna skyldum sínum sem trúnaðarmaður af yfirmanni. Allir sögðu að það hefði verið í sambandi við að sækja þing eða námskeið.
  • Trúnaðarmenn njóta samkvæmt lögum verndar í starfi. Í 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 segir að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. 91% telja að þau hafi næga vernd sem trúnaðarmaður. 8% skiluðu auðu.
  • 80% hafa farið á trúnaðarmannanámskeið. 19% sem ekki hafa farið má að mestu skýra með því að mikið var af nýjum trúnaðarmönnum og ekki var búið að halda námskeið frá því þau byrjuðu.
  • Trúnaðarmenn eru alla jafna mjög duglegir að leita til félagsins en 71% hafði fengið aðstoð. Þeir sem svöruðu neitandi höfðu ekki þurft að leita aðstoðar bæði vegna þess að mál höfðu ekki komið upp eða þá að þau voru nýbyrjuð.
  • 99% merktu við vel eða í lagi aðspurð um hvernig þeim hefði líkað aðstoðin. 

Eining-Iðja vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra trúnaðarmanna sem komu á fundina og lögðu sitt af mörkum með því að svara spurningakönnun þessari ásamt því að taka þátt í hópastarfinu.Vinna þessi mun koma sér vel fyrir félagið og aðra trúnaðarmenn.