Greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áformaða sölu Íslandsbanka
Röksemdir og skýringar skortir fyrir þeirri ákvörðun að hefja söluferli vegna Íslandsbanka á miklum óvissutímum. Enn er óljóst hversu stóran hlut stendur til að selja og ekki er skýrt til hvaða verkefna áformað er að nýta fjármunina sem fást fyrir sölu á bankanum. Þá veldur fyrri reynsla af einkavæðingu fjármálastofnana á Íslandi tortryggni og því sérstaklega mikilvægt að ítarleg samfélagsleg umræða skapist um kosti og galla slíkrar ráðstöfunar.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins sem birt er í dag. Hópurinn hóf störf um miðjan september og hefur frá þeim tíma sent reglulega frá sér skýrslur um áhrif COVID-kreppunnar.
Auk megin niðurstöðu hópsins að skýringar og röksemdir skorti fyrir þeirri ákvörðun að hefja sölu bankans eru fjölmargar efnislegar athugasemdir gerðar við fyrirhugaða sölu. Vakin er athygli á því að aðstæður séu nú allt aðrar en þegar boðað var í stjórnarsáttmála árið 2017 að hlutur ríkisins í fjármálakerfinu yrði minnkaður. Óvissa vegna COVID-faraldursins sé enn í algleymingi og upprisa ferðaþjónustu muni að öllum líkindum tefjast með tilheyrandi óvissa fyrir íslenskt efnahagslíf og bankakerfið þar með.
Hópurinn gerir athugasemdir við þann hraða sem einkennir ferlið og telur röksemdir fyrir sölu eins og þær hafa verið kynntar af hálfu Bankasýslu ríkisins og stjórnvalda ófullnægjandi. Ástæða söluferlisins virðist öðru fremur vera að standa við gefin fyrirheit í stjórnarsáttmála og hraðinn skýrast af komandi Alþingiskosningum. Slíkar röksemdir nægja ekki til að einkavæða banka.
Hér má lesa greinargerð hópsins um áformaða sölu Íslandsbanka.