Tveir fundir í dag, á Ólafsfirði og Siglufirði: MÆTTU ef þú vilt hafa áhrif á launakröfu þína!!!

Tveir fundur verða í Fjallabyggð í dag.
Tveir fundur verða í Fjallabyggð í dag.

Eining-Iðja heldur sex opna fundi á félagssvæðinu í vikunni þar sem leitað verður eftir hugmyndum að launaþáttum í kröfugerð félagsins. Fundirnir verða dagana 12. til 14. janúar, tveir fundir á dag. Allir fundirnir verða túlkaðir yfir á pólsku. Fundirnir í dag verða á Ólafsfirði kl. 17 og á Siglufirði kl. 20. 

  • Ólafsfjörður: Tjarnarborg kl. 17:00
  • Siglufjörður: Skrifstofa félagsins kl. 20:00

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að það hafi verið frábær mæting á fundina sem félagið hélt í gær á Grenivík og á Akureyri. "Ég á von á að mætingin verði einnig góð í dag og á morgun, við erum jú að tala um launin okkar, afkomu okkar. Þarna hafa allir félagsmenn tækifæri til að mæta á fund í sinni heimabyggð og koma sínum skoðunum eða kröfum á framfæri varðandi launaliði kröfugerðar félagsins. Það er því mjög mikilvægt að félagsmenn sýni samstöðu í verki og mæti á þessa fundi. Við verðum að muna að félagið er fólkið sem í því er og að við sem erum í forystu þess erum að vinna fyrir félagsmennina. Í nýlegri könnun sem Capacent gerði fyrir félagið kom í ljós að 65% aðspurða voru tilbúnir að fara í verkfall til að knýja á um bætt kjör ef á þarf að halda og miðað við fundina í gær þá hefur sú tala einungis hækkað. Samstaðan um aðgerðir ef á þarf að halda var algjör,“ sagði Björn.

Laugardaginn 17. janúar er búið að boða félagsmenn sem eru í samninganefndinni, trúnaðarráði auk trúnaðarmanna sem ekki eru í þessum nefndum á fund í Hofi á Akureyri. Fundurinn verður með þjóðfundarfyrirkomulagi og þar verður einnig leitað eftir hugmyndum af launakröfum félagsins, lengd samnings og fleira. Mánudaginn 19. janúar mun svo samninganefndin koma saman, fara yfir þær hugmyndir sem fram hafa komið og ganga endanlega frá kröfugerðinni sem félagið mun svo senda inn til Starfsgreinasambandsins sem hefur samningsumboð fyrir Einingu-Iðju.

Miðvikudagurinn 14. janúar

  • Hrísey: Veitingastaðurinn Brekka kl. 17:00
  • Dalvík: Mímisbrunnur kl. 20:00

Dagskrá*:

  1. Kröfugerð félagsins - umræða um launaþætti
  2. Önnur mál.
    *ATH! Á Grenivík og Ólafsfirði þarf einnig að kjósa svæðisfulltrúa og varamann hans. 

MÆTTU ef þú vilt hafa áhrif á launakröfu þína!!!