Á mbl.is segir að fjórir undirhópar vegna kjarasamningaviðræðna Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins fundi í húsakynnum sambandsins og ASÍ að Guðrúnartúni í dag. Þar verða meðal annars rædd málefni hópferðabílstjóra, ræstingafólks, mötuneytisstarfsmanna, iðnverkafólks, starfsmanna í veitingageira og fleiri stétta, að sögn Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra SGS.
Hann segir tugi manna koma að vinnu hópanna og að fulltrúar í þeim séu kallaðir til úr aðildarfélögum SGS um allt land á grundvelli sérfræðiþekkingar og reynslu.
„Til dæmis í viðræðuhóp úr hótel- og veitingageiranum eru um 12 frá okkur. Sem sagt fólk héðan og þaðan af landinu þannig að þetta er mjög breiður hópur.“
Mikil fundahöld hafa verið í gangi í þessum hópum og var fundað í gær ásamt því að fundað er í dag og á morgun. Á þessum fundum eru rædd sérmál og ákvæði sem varða einstakar stéttir, að sögn Flosa.
„Það sem út úr því kemur fer svo til viðræðunefndar SGS og Samtaka atvinnulífsins sem fundar hér á fimmtudag og föstudag,“ útskýrir Flosi sem bætir við að markmiðið sé að sem flestir komi að samningaviðræðunum.
Í dag eru þrír fulltrúar frá Einingu-Iðju á fundum í Reykjavík vegna samningaviðræðna við SA.