Trúnaðarmannanámskeið þrep 3

Nú rétt í þessu er að ljúka trúnaðarmannanámskeiði, þrepi 3, en það hefur staðið yfir síðustu þrjá daga í sal félagsins á Akureyri. Leiðbeinandi var Guðmundur Hilmarsson, frá Félagsmálaskóla alþýðu, sem fór þar m.a. yfir Tryggingapíramídann, vinnurétt, vinnueftirlit og vinnuvernd. Nemendur kynntust tryggingum sem við höfum í gegnum kjarasamninga, almannatryggingakerfið, sér tryggingar. Nemendur kynntust einnig íslenskum vinnurétti og þeim lögum sem styrkja kjarasamninga vinnumarkaðarins. Kynnt var hlutverk Vinnueftirlitsins, fjallað um lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnumarkaði, ábyrgð launagreiðenda, hlutverki öryggistrúnaðarmanna og hvað felst í vinnuvernd og hvernig hægt er að stuðla að vinnuvernd á vinnustað.

Síðasta daginn kynnti ráðgjafi frá starfsendurhæfingarsjóðnum Virk starfsemi Virk og hlutverki ráðgjafa, en trúnaðarmenn þurfa að getað vísað samstarfsmönnum sem eiga í veikindum til ráðgjafa VIRK.