Trúnaðarmannanámskeið, hluti 2, stendur nú yfir

Nú stendur yfir trúnaðarmannanámskeið, 2. hluti, í sal félagsins á Akureyri. Námskeiðið hófst í morgun og stendur yfir fram á föstudag. 18 trúnaðarmenn sitja námskeiðið frá félaginu, FMA og FVSA, en á því kynnast nemendur starfsemi stéttarfélaganna og réttindum félagsmanna. Einnig læra nemendur á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun þeirra, ásamt því að kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim. Nemendur læra reiknitölur helstu launaliða og kynnast grunnuppbyggingu launaseðla og launaútreikninga svo og staðgreiðslu skatta. Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað, hvernig megi stuðla að góðum samskiptum. Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra og þá kynnast nemendur afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda.

Leiðbeinandi í dag er Sigurlaug Gröndal, frá Félagsmálaskóla Alþýðu. Á morgun sjá starfsmenn félaganna um fræðsluna og fjalla m.a. um kjarasamninga og félögin sjálf. Á föstudaginn mun Þórir Gunnarsson, hagfræðingur hjá ASÍ, fræða nemendur um almannatryggingar og lífeyrissjóði.

Næsta námskeið

Dagana 24. til 26. nóvember nk. verður 3. hluti kenndur. Ekki er búið að setja niður námskeið vorannar en sú vinna er í gangi. Í vikunni verður sent boð á þá trúnaðarmenn sem eiga eftir að sitja hluta 3. Námskeiðin eru trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu.

Þeir trúnaðarmenn félagsins sem vilja sækja námskeiðin eru vinsamlegast beðnir að tilkynna þátttöku sína til félagsins í síma 460 3600 eða á netfangið ein@ein.is 

Sjá nánar hér