Vert er að benda trúnaðarmönnum á að búið er að raða niður trúnaðarmannanámskeiðum fyrir vorönn. Félagsmálaskóli alþýðu sér um námskeiðin, en hann er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, fer með rekstur og málefni skólans. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks.
Er nær dregur námskeiðum verða send bréf á þá trúnaðarmenn sem geta skráð sig á viðkomandi námskeið. Námskeiðin hafa fram að þessu farið fram í sal Einingar-Iðju, Skipagötu 14 á Akureyri, ef um staðnám er að ræða. Lagt er upp með að námskeiðið verði kennt í staðnámi en það getur orðið rafrænt!
|
Vorönn 2022 |
Áætluð tímasetning staðnám / vefnám |
Hluti 1 |
17. til 19. janúar |
9:00-16:00 / 9:00-14:30 |
Hluti 2 |
9. til 11. febrúar |
9:00-16:00 / 9:00-14:30 |
Hluti 3 |
14. til 16. mars |
9:00-16:00 / 9:00-14:30 |
Hluti 4 |
11. til 13. maí |
9:00-16:00 / 9:00-14:30 |
Trúnaðarmenn Einingar-Iðju eru mikilvægir hlekkir í starfi félagsins. Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa 5 eða fleiri félagsmenn. Þar sem starfa fleiri en 50 eiga að vera 2 trúnaðarmenn.
Við kosningu öðlast trúnaðarmaður um leið sérstaka lagalega vernd í starfi sínu, fær umboð félagsins til að fara með mál annarra og verður fulltrúi þess á vinnustaðnum. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið.
Trúnaðarmenn eiga samningsbundinn rétt til að sækja námskeið án launaskerðingar en þurfa að sjálfsögðu að sækja námskeiðin í samráði við yfirmann sinn.
Ef það er ekki trúnaðarmaður á þínum vinnustað hafðu þá samband við skrifstofu Einingar-Iðju og við setjum upp vinnustaðafund til að kjósa trúnaðarmann.