Á hverju ári fara fram nokkur trúnaðarmannanámskeið í sal Einingar-Iðju á Akureyri fyrir félagsmenn nokkurra stéttarfélaga á svæðinu. Í haust voru haldin tvö trúnaðarmannanámskeið, þrep 1 og 2, og vakti það forvitni tíðindamanns heimasíðunnar að hjón sátu saman þessi námskeið. Þetta eru þau Birna Þórmundsdóttir sem starfar hjá Securitas á Akureyri og Ævar Þór Bjarnason sem vinnur í Síðuskóla. Bæði eru þau félagsmenn Einingar-Iðju og er Ævar búinn að vera trúnaðarmaður síðan í september á þessu ári og Birna frá því í nóvember í fyrra. Eftir seinna námskeiðið voru þau spurð út í þessi námskeið og hvernig stæði á því að þau væru trúnaðarmenn.
„Það kom nú bara uppástunga á vinnustaðnum með mínu nafni og ég var alveg til í að prófa þetta. Svo var ég bara kosin og þannig byrjaði þetta,“ sagði Birna. Ævar sagði að þetta hefði verið svipað hvað hann varðar „það var enginn sem vildi taka þetta að sér og þegar ég sagðist vera tilbúinn í verkið þá var ekki aftur snúið.“
Aðspurð hvort þau hafi alltaf haft áhuga á kjaramálum sögðu þau bæði nei. „Það er nú samt þannig að eftir því sem þú eldist þá pælir þú meira í þessum málum. Það voru einhverjir aðrir sem hugsuðu um þetta fyrir mann þegar við vorum yngri. Svo þegar þú verður eldri og ferð að hugsa um þetta þá kemstu að því að þetta er bara ótrúlega skemmtilegt. Skýringin er væntanlega sú að margir eru búnir að eignast börn og koma þaki yfir höfuð sér á þessum tímapunkti í lífinu,“ sagði Birna.
Nú voruð þið að sitja ykkar fyrstu trúnaðarmannanámskeið og því liggur beinast við að spyrja hvort þau geri eitthvað gagn? „Já, ekki spurning. Það er farið yfir margt sem ég hafði ekki vit á og mun bara efla mig og okkur sem það sátum í starfi okkar sem trúnaðarmenn,“ sagði Ævar og bætti Birna við að hún væri búin að læra alveg helling á að sitja þessi námskeið. „Til dæmis var umfjöllunin um sjóði félagsins mjög góð. Þar kom margt fram sem ég vissi ekki, t.d. um allt sem hægt væri að fá endurgreitt frá félaginu. Þú pælir líka í öðrum hlutum núna meira en áður. Áður en ég gerðist trúnaðarmaður var hugsunin ef til vill sú að aðrir gætu bara hugsað fyrir mann. Það á ekki að vera þannig. Hver og einn þarf að bera ábyrgð á því að fylgjast með hvaða réttindi hann hefur, hvort launin séu rétt reiknuð út og allt slíkt. Núna eftir þessi námskeið er frumkvæðið orðið meira hjá manni sjálfum.“