Tillögur hagræðingahópsins féllu í grýttan jarðveg í miðstjórn ASÍ

Á fundi miðstjórnar ASÍ í dag voru tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar ræddar og var þungt hljóð í mönnum. Miðstjórninni þykir það skjóta skökku við að á meðan ríkisstjórnin ræðir við forystu verkalýðshreyfingarinnar um sátt og samstarf á vinnumarkaði sé nefnd á vegum þeirrar sömu ríkisstjórnar að vinna að breytingum á kjarnaþáttum á vinnumarkaði. Sumar tilagnanna eru m.a.s. komnar  í farveg innan ráðuneytanna.

Þó ASÍ telji tækifæri til að breyta ýmsu í stofnanaumgjörð vinnumarkaðarins þá er hér of langt gengið. Tillögur hópsins um breytingar á skipulagi lykilstofnana vinnumarkaðarins á borð við Fæðingarorlofssjóð, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit, hugmyndir um breytingar á framlögum til jöfnunar lífeyrisréttinda, réttinda þeirra sem missa vinnuna til atvinnuleysisbóta eða á fyrirkomulagi starfsendurhæfingar gengur þvert á vilja verkalýðshreyfingarinnar og er ekki gæfulegt innlegg í þær kjaraviðræður sem fara í hönd. Miðstjórn ASÍ krefst þess að ekki verði hróflað við þessum kjarnaþáttum vinnumarkaðarins án samráðs.

Minnisblað til miðstjórnar ASÍ 13.11.13