Þrjú sæmd gullmerki

Á aðalfundi Einingar-Iðju sem haldinn var þriðjudaginn 12. apríl sl. voru þrír félagar sæmdir gullmerki félagsins, þau Kristbjörg Ingólfsdóttir, Margrét Einarsdóttir og Stefán Aðalsteinsson. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði við það tilefni að allir sem hlutu viðurkenningu hafi unnið sitt starf af trúmennsku og óeigingirni. „Það er gaman fyrir félagið að geta sýnt því fólki sem starfað hefur lengi fyrir félagið og ekki síst sína samstarfsfélaga smá þakklætisvott fyrir hið mikla starf sem þeir hafa innt af hendi,” sagði Björn.

Þau sem hlutu gullmerki félagsins eru eftirtalin:

Kristbjörg Ingólfsdóttir
Hún hefur verið í stjórn Matvæla- og Þjónustudeildar til fjölda ára og sem varaformaður þar setið í aðalstjórn félagsins.  Kristbjörg hefur verið mjög virkur félagsmaður og tekið þátt í mörgum fundum og ráðstefnum sem fulltrúi okkar og setið ýmsum stjórnum og ráðum innan félagsins. Hún hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.

Margrét Einarsdóttir
Hún hefur unnið meira og minna hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum á svæðinu frá árinu 1977. Hún er nú innheimtustjóri félagsgjalda og skráir bókhald hjá Einingu-Iðju. Hún hefur í gegnum árin sýnt afburða hæfni í þeim störfum sem hún hefur sinnt og með lagni og þrautseigju hefur hún náð frábærum árangri í innheimtu félagsgjalda. Þessir 750 atvinnurekendur sem hún þarf að vera í sambandi við eru ekki allir auðveldir í samskiptum. Rík réttlætiskennd og dugnaður gerir hana að fyrirmyndar starfsmanni.

Stefán Aðalsteinsson
Hann  hefur verið mjög virkur félagsmaður og setið í stjórn Einingar-Iðju sem varaformaður Matvæla- og Þjónustudeildar, verið frá upphafi stjórnarmaður í deildinni og tekið þátt í mörgum fundum og ráðstefnum sem fulltrúi okkar og setið stjórnum og ráðum innan félagsins. Hann hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.

Á myndinni má sjá gullmerkjahafana ásamt formanni og varaformanni félagsins. F.v.: Anna Júlíusdóttir, Kristbjörg, Stefán, Margrét og Björn Snæbjörnsson.