Þau sem hlutu gullmerki félagsins eru eftirtalin:
Kristbjörg Ingólfsdóttir
Hún hefur verið í stjórn Matvæla- og Þjónustudeildar til fjölda ára og sem varaformaður þar setið í aðalstjórn félagsins. Kristbjörg hefur verið mjög virkur félagsmaður og tekið þátt í mörgum fundum og ráðstefnum sem fulltrúi okkar og setið ýmsum stjórnum og ráðum innan félagsins. Hún hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.
Margrét Einarsdóttir
Hún hefur unnið meira og minna hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum á svæðinu frá árinu 1977. Hún er nú innheimtustjóri félagsgjalda og skráir bókhald hjá Einingu-Iðju. Hún hefur í gegnum árin sýnt afburða hæfni í þeim störfum sem hún hefur sinnt og með lagni og þrautseigju hefur hún náð frábærum árangri í innheimtu félagsgjalda. Þessir 750 atvinnurekendur sem hún þarf að vera í sambandi við eru ekki allir auðveldir í samskiptum. Rík réttlætiskennd og dugnaður gerir hana að fyrirmyndar starfsmanni.
Stefán Aðalsteinsson
Hann hefur verið mjög virkur félagsmaður og setið í stjórn Einingar-Iðju sem varaformaður Matvæla- og Þjónustudeildar, verið frá upphafi stjórnarmaður í deildinni og tekið þátt í mörgum fundum og ráðstefnum sem fulltrúi okkar og setið stjórnum og ráðum innan félagsins. Hann hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.
Á myndinni má sjá gullmerkjahafana ásamt formanni og varaformanni félagsins. F.v.: Anna Júlíusdóttir, Kristbjörg, Stefán, Margrét og Björn Snæbjörnsson.