Á aðalfundi Einingar-Iðju sem haldinn var fimmtudaginn 6. apríl sl. voru þrír félagar sæmdir gullmerki félagsins. Þetta voru þær Júlíana Kristjánsdóttir, Þórey Aðalsteinsdóttir og Hafdís Kristjánsdóttir. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði við það tilefni að allir sem hlutu viðurkenningu hafi unnið sitt starf af trúmennsku og óeigingirni. „Það er gaman fyrir félagið að geta sýnt því fólki sem starfað hefur lengi fyrir félagið og ekki síst sína samstarfsfélaga smá þakklætisvott fyrir hið mikla starf sem þeir hafa innt af hendi,” sagði Björn.
Júlíana Kristjánsdóttir
Hún hefur verið í stjórn Matvæla- og Þjónustudeildar frá stofnun deildarinnar. Júlíana hefur lengi verið trúnaðarmaður á sínum vinnustað og verið mjög virkur félagsmaður og tekið þátt í mörgum fundum sem fulltrúi okkar og setið ýmsum stjórnum og ráðum innan félagsins. Hún hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.
Þórey Aðalsteinsdóttir
Hún hefur starfað lengi sem trúnaðarmaður á sínum vinnustöðum og verið varasvæðisfulltrúi svæðisráðs Grýtubakkahrepps um árabil. Þórey hefur verið virkur félagsmaður og tekið þátt í mörgum fundum sem fulltrúi okkar og setið ýmsum stjórnum og ráðum innan félagsins. Hún hefur verið óhemjudugleg að mæta í það sem henni hefur verið falið að gera fyrir félagið, þó ekki hafi alltaf verið auðvelt að komast vegna veðurs og ófærðar. Hún hefur verið öflugur talsmaður sinna félaga og félagsins í heild.
Hafdís Kristjánsdóttir
Hafdís hefur starfað lengi sem svæðisfulltrúi svæðisráðs Ólafsfjarðar og þannig setið í aðalstjórn félagsins. Hún hefur sótt ótal þing og ráðstefnur fyrir hönd félagsins. Hún hefur sinnt starfi sínu af kostgæfni. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að sækja fundi um langan veg frá Ólafsfirði og oft tekið á þegar veður og færð hefur ekki verið upp á það besta. Það er aldrei drungi þar sem Hafdís er, og hefur hún verið skemmtanastjóri, t.d. á þingum Alþýðusambands Norðurlands á Illugastöðum. Hún hefur verið öflugur talsmaður síns bæjarhluta Fjallabyggðar og félagsins í heild.
Á myndinni má sjá gullmerkjahafana ásamt formanni og varaformanni félagsins. F.v.: Björn Snæbjörnsson, Hafdís, Þórey, Júlíana og Anna Júlíusdóttir.