Þörf á samstöðu innan SGS í komandi kjarasamningaviðræðum

Samninganefnd Einingar-Iðju telur að mikil þörf sé á því að stéttarfélög sem eiga aðild að Starfsgreinasambandi Íslands sýni samstöðu í komandi kjarasamningaviðræðum en samningar eru við Samtök atvinnulífsins eru lausir 30. nóvember nk. og samningar við ríki 31. janúar og sveitarfélög verða lausir 30. apríl á næsta ári.

Samninganefndin einhuga um að veita SGS umboðið
Í gær samþykkti samninganefnd félagsins samhljóða að veita samninganefnd SGS umboð vegna fyrirhugaðra kjarasamningaviðræðna við SA, við Samband íslenska sveitarfélaga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins. Nefndin samþykkti einnig að veita Starfsgreinasambandinu umboð til að gera viðræðuáætlun við SA, Samband íslenska sveitarfélaga, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins, Bændasamtök Íslands og Landsamband smábátaútgerða. Í umboðinu kemur jafnframt fram að tryggt skuli í viðræðuáætluninni aðkomu félagsins að sérkjarasamningum sínum.

Mikil vinna farið fram
Það hefur farið fram mikil vinna  í samninganefndinni og hjá félaginu í sambandi við næstu kjarasamningaviðræður. Fundurinn í gær var fjórði fundur nefndarinnar í ár. Fyrsti fundurinn fór fram í byrjun mars, en á honum var m.a. rætt hvernig undirbúningur félagsins ætti að vera fyrir næstu samningaviðræður og samþykkt að gera ætti skoðanakönnun á vinnustöðum eins og gert var fyrir síðustu samninga. Á fundinum var einnig samþykkt fundaplan nefndarinnar fyrir næstu mánuði.

Frábær þátttaka hjá félagsmönnum
Dagana 6. til 10. maí fór fram skoðanakönnun á vinnustöðum á meðal félagsmanna. Könnun var gerð á ábyrgð trúnaðarmanna, en þeir sáu um um að koma spurningalistum á samstarfsmenn og skila þeim svo aftur til félagsins. Félagið hefur áður staðið fyrir slíkum könnunum fyrir samninga, en með þessari aðferð náum við fram sem bestum upplýsingum um vilja félagsmanna varðandi það hvað leggja beri áherslu á við gerð næstu kjarasamninga. Við fengum 1.330 svör sem er alveg frábært. Sumarið verður svo nýtt til að vinna úr könnuninni og svo verða niðurstöðurnar kynntar í samninganefndinni á dagsfundi sem verður í lok ágúst. Á þeim fundi verður einnig byrjað að vinna við kröfugerð félagsins.

Allir félagsmenn geta haft áhrif á kröfugerðina
Dagana 13. til 15. maí sl.hélt félagið fund með trúnaðarmönnum þar sem farið var yfir yfir gildandi kjarasamninga og þeir samlesnir. Tilefni þessara funda var að undirbúa komandi kröfugerð félagsins fyrir samningana í haust. Kristján Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, var fenginn til að hafa yfirumsjón með þessum fundum. Á fundinum í gær var farið yfir samantekt á niðurstöðum þessara funda, sem tókust allir mjög vel þó misvel hafi verið mætt á þá. Markmiðið með þeim var ð gefa trúnaðarmönnum tækifæri á að koma að stefnumótun félagsins í komandi samningum, safna ábendingum og athugasemdum varðandi kjarasamninga, fá fram helstu áhersluþætti trúnaðarmanna í komandi samningum og safna upplýsingar um sérmál ákveðinna starfshópa.

Í byrjun september verða haldnir sex félagsfundir (Fjallabyggð, Dalvík, Hrísey, Grenivík, Grímsey og Akureyri) þar sem kynnt verður vinna samninganefndarinnar og að þar verði síðasti möguleiki á að koma með ábendingar til hennar áður en gengið verði frá kröfugerð félagsins á fundi samninganefndar sem verður 9. september nk. Fullmótuð kröfugerð félagsins þarf að hafa borist Starfsgreinasambandi Íslands fyrir 12. september nk.