Fyrr í morgun var 42. þing ASÍ sett og hér fyrir neðan má lesa þingsetningarræðu forseta ASÍ.
Ágætu þingfulltrúar og gestir, velkomin á 42. þing ASÍ sem haldið er á 100 ára afmælisári sambandsins. Af því tilefni ákváðum við að bjóða heldur fleiri gestum að vera viðstöddum setningu og upphaf þingsins en venja er og býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin.
Við minntumst aldarafmælis sambandsins á sjálfan afmælisdaginn þann 12. mars, þar sem áherslan var lögð á að gera þetta með gleðilegum og skemmtilegum hætti, því það er ekki óalgengt að birtingarmynd verkalýðshreyfingarinnar og forystumanna hennar sé fólk sem er mikið niðri fyrir því verkalýðsbaráttan er okkur hjartans mál og stutt í heitar tilfinningar. Minnug þess að það er fátt sem sameinar fólk jafnvel og söngur - og sigrar okkar hafa jú ávallt byggt á samstöðunni – lá beint við að halda upp á afmæli ASÍ með tónleikum og það gerðum við samtímis á fjórum stöðum á landinu laugardaginn 12. mars, í Hörpu hér í Reykjavík, í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, í Hofi á Akureyri og Egilsbúð í Neskaupstað.
Fyrir utan söng og skemmtun var það vilji okkar í miðstjórn ASÍ að láta aldarafmælið snúast um innihald og árangur þessarar 100 ára baráttu launafólks fyrir jöfnuði og jöfnum tækifærum. Við höfum með útgáfu á sögu ASÍ, samstarfi við Þjóðminjasafnið um veglega ljósmyndsýningu og opnum degi í Árbæjarsafninu reynt að draga upp skýra mynd af ólíkum störfum alþýðufólks og baráttu þess fyrir réttindum og bættum lífskjörum í heila öld. Saga Íslands er saga þessa fólks og baráttu þess.
Góðir félagar,
Ef við reynum eitt augnablik að sjá fyrir okkur aðstæður íslenskrar alþýðu í upphafi síðustu aldar, þegar mikil umbrot áttu sér stað í íslensku samfélagi. Vistarbandið illræmda var afnumið 1894, lög um greiðslu launa í lögeyri voru innleidd um aldamótin og mikil uppbygging var í fiskvinnslu, iðnaði hvers konar og þjónustu og afgreiðslu - stétt öreiga og auðvalds varð til með tilheyrandi hagsmunaárekstrum.
Líkt og í nágrannalöndunum fann verkafólk til vanmáttar síns í samskiptum við atvinnurekendur og leitaði leiða til að mynda mótvægi við ægivald auðvaldsins með stofnun verkalýðsfélaga til að sameinast um kjör sín.
Hluti af þessum umbrotum í samfélaginu voru einnig átök á hinu pólitíska sviði. Þjóðin var smátt og smátt að öðlast fullveldi eftir árhundraða baráttu, en fullveldisbaráttan hafði einokað hina pólitísku umræðu þar sem ólíkir hagsmunir höfðu lítið komist að. Með uppvexti fjölmennrar stéttar verkamanna fór innihald hinnar pólitísku umræðu einnig að breytast. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga, að árið 1915 voru það ekki bara konur sem fengu kosningarétt, sem var auðvitað mikilvægur og merkur áfangi í réttindabaráttu kvenna, heldur fékk alþýða karla og kvenna einnig kosningarétt. Þetta lagði grunninn að allt annars konar pólitísku landslagi hér á landi og nýir flokkar skutu rótum.
Mér finnst full ástæða til að minna á það, nú í aðdraganda alþingiskosninga, að það er jafn mikilvægt í dag og það var fyrir 100 árum að almennt launafólk eigi sinn málsvara sem ver hagsmuni þess, standa vaktina bæði á vinnumarkaði í samskiptum við fyrirtækin en líka á hinum pólitíska vettvangi og í samfélagsumræðunni. Það er dapurlegt að horfa upp á það, aftur og aftur, að það virðist auðveldara að standa vörð um sérhagsmuni á Alþingi heldur en almannahagsmuni og því full ástæða til að skora á frambjóðenda til Alþingis að gefa þessu gaum og hvetja þá sem síðan setjast á þing í framhaldinu til að breyta þessu.
Við stofnun Alþýðusambandsins, árið 1916 þótti eðlilegt að verkalýðshreyfingin stæði samhliða að stofnun pólitísks vettvangs til að berjast fyrir hagsmunum sínum, Alþýðuflokknum. Því eiga Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn, og jafnaðarmannahreyfingin í heild sinni sameiginlegt upphaf, og sameiginlegan afmælisdag.
Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi verið heillaspor fyrir samtökin og verkalýðsbaráttuna, að aðskilja flokk og hreyfingu árið 1940. ASÍ væri í dag ekki það afl sem það er, með meira en 115 þúsund félagsmenn og yfir 90% þátttöku í stéttarfélögum, ef svo hefði ekki verið. Þó við séum ekki stór í alþjóðlegu samhengi vill ég leyfa mér að fullyrða að við erum heimsins sterkasta verkalýðshreyfing sem sinnir bæði mikilvægri hagsmunabaráttu í samskiptum við atvinnurekendur og stjórnvöld, en einnig beinni þjónustu og sjálfseflingu okkar félagsmanna daglega. Það breytir því ekki, eins og ég sagði áðan, að almennt launafólk þarf enn þann dag í dag á öflugum málsvara að halda á hinu pólitíska sviði.
Ég held að það hljóti að vera hverjum manni ljóst sem skoðar sögu 20. aldar á Íslandi, að hlutur verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðusambandsins í mótun samfélagsins, þess velferðarkerfis og þeirra lífskjara sem við búum við í dag er bæði stór og hann er mikilvægur. Í dag erum við hér saman komin, fulltrúar þessara ríflega 115.000 félagsmanna Alþýðusambandsins, til þess að hefja kyndil þessarar baráttu á loft enn einu sinni. Það er á okkar ábyrgð að sameinast um framtíðarsýn byggða á hugsjónum verkalýðshreyfingarinnar og ákveða næstu skref í baráttunni fyrir hagsmunum launafólks.
En ágætu félagar,
Ef það er eitthvað sem er rauður þráður í baráttu Alþýðusambandsins sl. 100 ár, fyrir utan kjarabaráttuna sjálfa auðvitað, þá eru það húsnæðismálin. Öruggt húsnæði á viðunandi kjörum er grundvallar mannréttindi og launafólk hefur frá upphafi beitt verkalýðshreyfingunni – og þá einkum Alþýðusambandinu – til þess að berjast fyrir úrbótum í húsnæðismálum, því þau hafa aldrei komið átakalaust. Það er því mikið ánægjuefni að okkur hafi tekist á aldarafmælinu að fá í gegn nýja löggjöf um verulega niðurgreiðslu á stofnkostnaði almennra íbúða til að leysa húsnæðisvanda tekjulægri heimila, ásamt skuldbindingu stjórnvalda um fjármagn til að byggja allt að 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þó við séum staðfastlega þeirrar skoðunar að meira þurfi til!
Miðstjórn ASÍ fannst einnig við hæfi að horfa til húsnæðismála þegar við veltum því fyrir okkur hvað væri viðeigandi gjöf sambandsins til félagsmanna í tilefni afmælisins, en á fundi sínum þann 3. mars sl. ákvað miðstjórn ASÍ að sambandið myndi standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags með því að leggja fram stofnfé og leita til aðildarfélaga ASÍ um að veita íbúðafélaginu fjárhagslegan stuðning í upphafi til að treysta framgang verkefnisins. Það var einnig ánægjulegt að félagar okkar í BSRB ákváðu að leggja sitt á vogarskálarnar og gerðust stofnaðilar með okkur að þessu félagi í sumar. Nú getum við hætt að tala um húsnæðisvanda þessa hóps og ráðist af krafti gegn honum með framkvæmdum. Við höfum hins vegar ennþá verk að vinna við að koma á nýju húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd – kerfi sem tryggir almenningi hagstæðari og réttlátari lánaskilmála – og er það mál á dagskrá þessa þings.
En kæru félagar,
Á undanförnum árum hefur verið meiri ólga og tíðari deilur á vinnumarkaði en við höfum séð um árabil. Á síðasta þingi okkar stóðum við frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu, en aðildarsamtök ASÍ og BSRB höfðu gengið til samninga á forsendum stöðugleika í ársbyrjun 2014. Reyndar tókst að koma verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans, þar sem hún hefur verið síðan, en fljótlega í kjölfar þeirra samninga snéru fyrst ríkisvaldið og sveitarfélögin og síðar atvinnurekendur við blaðinu og sömdu um launahækkanir við aðra hópa sem voru langt umfram það sem almennt launafólk hafði fengið. Skyndilega hafði orðið til ný launastefna fyrir háskólamenn, kennara og lækna sem mótaði nýjan farveg fyrir þá samninga, sem fylgdu í kjölfarið, þar sem hugtakið ,,leiðrétting‘‘ var lagt til grundvallar án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Í ályktun síðasta þings okkar gerðum við viðsemjendum okkar og stjórnvöldum það ljóst, að aðildarsamtök ASÍ myndu ekki una því að launafólki sé mismunað með þessum hætti. Það mun aldrei gerast í þessu landi að almennt launafólk beri eitt ábyrgð á stöðugleika efnahagsmála og lágri verðbólgu, á meðan aðrir sækja sér aukinn kaupmátt með meiri launahækkunum.
Vorið 2015 stóðum við því í einhverjum þeim erfiðustu kjarasamningum sem hreyfingin hefur staðið frammi fyrir um árabil. Ég leyni ekki þeirri skoðun minni, að ég hefði viljað sjá meiri samstöðu innan okkar raða í þeirri glímu, og áður en yfir lauk þurftum við að kalla félagsmenn okkar til aðstoðar með boðun víðtækra verkfalla. Því miður urðu þeir samningar sem gerðir voru í maí og júní ekki grunnur að sátt á vinnumarkaði, verkföll háskólamanna og hjúkrunarfræðinga héldu áfram og svo fór að Alþingi setti lög sem bannaði verkföllin og setti lausn deilunnar í gerðardóm.
Þegar niðurstaða gerðadóms lá fyrir – en hann tók sín viðmið í þeim samningum sem ríkið hafði gert við m.a. framhaldsskólakennara og lækna – var ljóst að það stefndi í mikið óefni á vinnumarkaði. Ósamið var við stóra hópa hjá ríki og sveitarfélögum og forsendur kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði frá því um vorið voru brostnir. Það var við þessar aðstæður, að forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði settust niður og freistuðu þess að ná sátt um þróun kjaramála, bæði í bráð m.t.t. gildandi kjarasamninga en einnig með langtímahagsmuni að leiðarljósi með viðræðum um mótun nýs samningalíkans fyrir íslenskan vinnumarkað – svokölluð salek umræða. Fulltrúar launagreiðenda lýstu sig reiðubúna til þess að leggja niðurstöður gerðadóms til grundvallar sameiginlegri launastefnu til ársloka 2018 gegn því að samtök launafólks samþykktu meginstoðir nýs samningalíkans sem byggi í grundvallar atriðum á þeim vinnubrögðum sem viðtæk sátt hefur verið um á hinum Norðurlöndunum um árabil.
Góðir félagar,
Áður en ég held lengra vil ég aðeins staldra við hugmyndina um Norræna samfélagsmódelið sem hér verður til umræðu og sífellt er vitnað til. Það módel varð til við svipaðar aðstæður og þær sem við glímum nú við, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu í heild. Þar höfðu menn um árabil glímt við vanda ósamstæðrar hagstjórnar og innbyrðist ágreining á vinnumarkaði, þar sem lítil innistæða var oft fyrir þeim launahækkunum sem samið var um og hurfu síðan jafn óðum með breytingum á gengi og verðlagi. Ég held að okkur sé nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd, að það er mörgu um að kenna hversu illa okkur Íslendingum hefur gengið að tryggja varanlegan stöðugleika í efnahags- og félagsmálum. Undanfarið ár höfum við aflað okkur upplýsinga, bæði með heimsóknum, skýrsluskrifum og samtölum, um afstöðu og aðstæður félaga okkar á hinum Norðurlöndunum. Ég leyfi mér að fullyrða, að þó vissulega séu ýmis vandamál sem koma upp í samskiptum á vinnumarkaði hjá frændum okkar, er það einróma afstaða þeirra að með þessu samningalíkani hafi þeim tekist að auka kaupmátt meir og bæta lífskjör betur, við skilyrði lágrar verðbólgu og lágra vaxta, en dæmi eru um í sögunni. Af þeim ástæðum vilja þeir ekki hverfa frá þessari samningaaðferð.
Ef okkur á að takast að ná tökum á þessu hér á landi, verður það að ekki gert nema sem samvinnuverkefni á breiðum vettvangi. Stjórnmálin og vinnumarkaðurinn í samstarfi við Seðlabankann verða að taka höndum saman og endurskoða samskipti og hlutverkaskiptingu varðandi lykilþætti bæði efnahagsmála og félags- og velferðarmála. Það eru ótal mörg atriði sem við þurfum að huga að áður en hægt er að taka upp svona samningalíkan og ég ætla að leyfa mér hér við setningu þingsins að tæpa á nokkrum , en það er eitt atriði sem öllu máli skiptir. Þegar öllu er á botninn hvolft er TRAUST á milli aðila lykilforsenda þessa þess að hægt verði að fara þessa leið, traust á milli viðsemjenda, traust og samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar, traust á milli vinnumarkaðar og stjórnmálanna, ekki bara meirihluta heldur allra flokka og síðast en ekki síst traust á milli stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja og stofnana til að geta fylgt þessari aðferðafræði eftir.
Það hefur verið skýr afstaða Alþýðusambandsins að ekki er hægt að nálgast umræðuna um nýtt og breytt samningalíkan í einhverju tómarúmi, heldur verður að setja það í samhengi við allt samfélagsmódelið. Það er engin tilviljun að í okkar stjórnarskrá eru tvær tegundir félagasamtaka, sem njóta sérstakrar verndar, en það eru stjórnmálaflokkar og stéttarfélög. Ástæðan er einföld, innan veggja þessara félagasamtaka kraumar almannaviljinn. Að sama skapi er enginn vafi á því að Norræna samfélagsmódelið hefur bæði leitt til réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar og meiri kaupmáttaraukningar en raunin hefur verið hér á landi. Geta litlu opnu norrænu markaðshagkerfanna til að sameina jöfnuð og hagkvæmni byggir á samspili þeirra þriggja stoða, sem saman mynda það þríeyki sem einkennir norræna samfélagsmódelið. Þessar stoðir eru efnahagslegur stöðugleiki sem byggir á skýrri og ábyrgri hagstjórn, félagslegur stöðugleiki með sterku velferðarkerfi og vel skipulagður vinnumarkaður með ábyrgt og agað samningalíkan. Saman styðja aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og Seðlabankinn við markmiðið um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.
Ef við byrjum á hagstjórninni, þá verður launafólk að geta treyst því að stjórnvöld og Seðlabanki hafi það sem meginmarkmikið hagstjórnar að jafna hagsveiflur með samstilltu átaki, þar sem markmið peningastefnunnar er að tryggja stöðugt gengi og lága vexti og ríkisfjármálanna að axla ábyrgð á því að jafna hagsveiflur. Langtímaáætlun í ríkisfjármálum þarf að hvíla á traustum tekjustofnum og réttlátu skattkerfi. Markmið um hátt atvinnustig þarf að vera í öndvegi og byggja á virkri atvinnustefnu sem styður markmið um góð og vel launuð störf. Hér þarf því að að skapa þverpólitíska sátt milli stjórnmálaflokkanna um megináherslur í stjórn efnahagsmála, bæði ríkisfjármála og peningamála, en vinnumarkaðurinn verður að sama skapi að haga sínum samningum í samræmi við þessi sömu markmið. Ósamræmi í stjórn efnahagsmála hefur iðulega leitt til hækkunar á raungengi íslensku krónunnar þannig að það verður ekki í neinu samræmi við undirliggjandi aðstæður í útflutnings- eða samkeppnisgreinum. Það gengur alls ekki upp að ætlast til þess að launafólk semji á grundvelli traustrar samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina ef Seðlabankinn eyðileggur hana með framgöngu sinni í vaxta- og gengismálum eða ríkisstjórnin með óábyrgri hagstjórn. Afleiðingin hefur iðulega verið mikill viðskiptahalli og skuldasöfnun í útlöndum, sem á endanum hefur kallað á gengisfellingu krónunnar, með tilheyrandi verðbólguskoti, lækkun raunlauna og eignaupptöku gagnvart almenningi.
Það er engin launung á því að efnahagslegur stöðugleika gerir kröfu um mikinn sveigjanleika fyrirtækja til að geta lagað sig að síbreytilegum aðstæðum á markaði, einfaldlega vegna þess að það eru takmörk fyrir því hvað stjórnmálin eða Seðlabankinn geta áorkað með því að jafna sveiflur í hagkerfinu. Frá sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar hlýtur forsenda slíks sveigjanleika fyrirtækjanna hins vegar að vara að launafólk búi við félagslegt öryggisnet til að mæta afleiðingum breyttra aðstæðna. Þannig verður félagsmönnum okkar að vera tryggð bæði afkoma og þjónusta t.d. við atvinnumissi, veikindi, slys og barnsfæðingar eða fái tækifæri til endur- og símenntunar á síbreytilegum vinnumarkaði.
Ég nefni þetta hér vegna þess að um þetta atriði hefur verið deilt. ASÍ neitaði ásamt BSRB að skipa fulltrúa í Þjóðhagsráð í sumar þrátt fyrir að kveðið væri á um stofnun þess í rammasamkomulaginu, vegna þess að ekki var vilji til þess að fjalla um félagslega stöðugleikan til jafns við þann efnahagslega. Við höfum hafið samtalið við forystumenn allra stjórnmálaflokka um stefnumörkun um brýnustu úrlausnarefni í velferðar og félagsmálum en án niðurstöðu. Það er afar mikilvægt að stjórnmálin geri sér grein fyrir því að okkur er full alvara í kröfu okkar um að setja þessa hluti í samhengi.
Alþýðusambandið vill samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra þar sem öllum er tryggð mannsæmandi afkoma og réttur til heilbrigðisþjónustu, menntunar og velferðar. Við viljum ræða þetta í samhengi við nýtt samningalíkan, því launafólk verður að geta treyst því að stjórnvöld forgangsraði í þágu velferðar og tryggi til þess fjármagn með réttlátu skattkerfi. Ég minni á að í rammasamkomulaginu frá síðasta ári er þetta samhengi dregið upp með nokkuð skýrum hætti. Um þetta þarf að ríkja breið sátt og skilningur milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins. Við köllum þetta félagslegan stöðugleika – og teljum að of langt hafi verið gengið í skattalækkunum gagnvart tekjuhæsta hluta þjóðarinnar þannig að mikilvæg velferðar verkefni á borð við húsnæðismál, heilbrigðismál, öldrunarþjónustu, velferð og jafnræði á vinnumarkaði eru í uppnámi og verulega vanfjármögnuð. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að samstaða um úrlausn þessara mála á næstu árum getur orðið mikilvægur liður í að skapa sátt um nýtt samningalíkan, ef rétt er að málum staðið. Stjórnvöld og fyrirtæki verða að axla sinn hluta ábyrðarinnar á efnahagslegum stöðugleika og viðurkenna í framkvæmd að honum fylgi félagslegur stöðugleiki og velferð. Þetta er sitt hvor hliðin af sama pening, annað verður ekki án hins!
En ágætu félagar,
Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru margir fyrirvarar og mörg ef, en ef við gefum okkur að sátt náist um þessar lykilforsendur félagslegs og efnahagslegs stöðugleika, hvað er það sem einkennir þá þetta Norræna samningalíkan, hverjar voru þessar stoðir sem lágu til grundvallar rammasamkomulaginu frá því í október á síðasta ári?
Í sem stystu máli hafa Norrænu samningalíkönin verið það sem kallað er miðstýrð dreifstýring.
Þau eru miðstýrð hvað varðar ákvarðanir um kostnaðarsvigrúm kjarasamninga – en umfang þess ræður úrslitum um getu seðlabankans til að halda vöxtum lágum og genginu stöðugu og þar með verðbólgunni lágri. Frændur okkar á Norðurlöndunum tala gjarnan um að þessi þáttur kjarasamninga snúist um almannaheill – að það séu hagsmunir heildarinnar að verðlag sé stöðugt og vextir lágir og því verði allir að leggja sitt af mörkunum til að ná slíkum stöðugleika og viðhalda honum. Þetta var m.a. áhersla okkar við gerð Þjóðarsáttarsamninganna á sínum tíma og um þetta höfum við ítrekað ályktað á vettvangi ASÍ að við ætlum okkur ekki að fara þá leið ein. Breið samstaða er um það á hinum Norðurlöndunum, að kostnaðarsvigrúm atvinnulífsins til kjarabreytinga er skilgreint út frá samkeppnisstöðunni gagnvart helstu viðskiptalöndum.
Í framkvæmd er það gert þannig að fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna þeirra fyrirtækja, sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða eru í beinni samkeppni við innflutning, semja fyrst og ákvarða þannig kostnaðarsvigrúmið. Innan raða Alþýðusambandsins væru talsmenn allra helstu hópa hjá okkur við þetta samningaborð. Jafnframt er breiður skilningur á því og samstaða um það að sú niðurstaða leggur línurnar fyrir aðra hópa til að tryggja jafnræði, því annars myndi sá hópur sem á undan fer og tryggir forsendur stöðugleikans bera minnst úr býtum! Ástæðan fyrir því að þessi stéttarfélög semja fyrst og leggja línurnar er í sjálfu sér ekki flókin. Ef kostnaðarhækkanir verða meiri en samkeppnisstaða fyrirtækjanna leyfir eru allar líkur á því að fyrirtækin missi markaði, tapi verkefnum, og þurfi í framhaldinu að fækka starfsmönnum eða draga úr vinnu, því genginu er haldið stöðugu og samkeppnisstaðan verður því ekki bætt með gengisfellingu. Starfsmenn þessara fyrirtækja þurfa þannig að þola með beinum hætti afleiðingar samninganna og því má að sumu leiti segja að forgangur þeirra við að leggja línuna byggi á ákaflega lýðræðislegum rökum.
Dreifði hluti þessa samningalíkans – sá hluti sem lítið hefur fengist ræddur í umræðunni hér á landi en er engu að síður hluti af rammasamkomulaginu frá síðast ári – byggir á því að miðlægi hlutinn er einungis rammasamkomulag um ,,kostnaðarhækkanir‘‘ en ekki endilega ,,launahækkanir‘‘. Nú kann einhver að spyrja hvaða munur sé þarna á og það kemur ekki á óvart. Norræna samningamódelið byggir nefnilega á því að hin eiginlega launasetning er ekki lengur miðlæg í hendi stéttarfélaga, landssambanda þeirra og þaðan af síður heildarsamtaka í viðræðum við atvinnugreina- eða heildarsamtök atvinnurekenda, heldur fer launasetningin að mestu leiti fram úti í fyrirtækjunum í staðbundnum og beinum samskiptum starfsmanna og trúnaðarmanna þeirra við stjórnendur fyrirtækjanna. Ef þessi breyting á samskiptum á vinnumarkaði næðist í gegn, væri þetta einhver mesta kerfisbreyting, já og lýðræðisbreyting á vinnumarkaði frá upphafi. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessar breytingar munu vafalaust gerast í hægum skrefum meðan við erum að læra á þetta, bæði við í verkalýðshreyfingunni, okkar félagsmenn svo ég tali nú ekki um fyrirtækin og samtök þeirra. Þegar Danir fóru inn í þetta kerfi árið 1987 var tæplega helmingur sambandsins á taxtalaunasamningum en þetta hlutfall er víst í dag komið undir 10%. Með þessu fyrirkomulagi væri í fyrirtækjum þar sem vel gengur hægt að ganga lengra í hækkun launa, en almennt gerist og jafnframt er hægt að ganga lengra í launahækkunum, ef samið er um hagræðingu, framleiðni eða ábataskipti á móti. Sem dæmi má nefna að ef samið er um 2% launakostnaðarramma og hagræðing innan fyrirtækisins skilar 3% sparnaði, getur launahækkunin orðið 5% án þess að ástæða sé til að hafa áhyggjur af verðlagi, gengi eða fjölda starfa. Þetta er í rauninni kjarninn í norræna samfélags- og efnahagsmódelinu og megin ástæða þess að Norðurlöndin geta greitt hæstu launin en verið á sama tíma meðal samkeppnishæfustu þjóða!
En góðir félagar,
Norræna samningalíkanið gengur lengra, því það byggir á mjög ríkri samkennd og sameiginlegum skilningi á því að jafnræði þurfi að vera á milli hópa m.t.t. þróunar kjara. Þetta er til þess að verja grundvöll líkansins og endurnýja í sífellu tilvist þess – ekkert gerist af sjálfu sér heldur vegna þess að menn vilja það! Þegar frændur okkar tóku þetta samningalíkan upp – á svipuðum tíma og við gerðum þjóðarsáttarsamningana árið 1990 – stóðu þeir í rauninni frammi fyrir ámóta ,,deilum‘‘ á vinnumarkaði hvað varðar mismunandi lífeyrisréttindi og áhrif misskiptingar á launaskriði. Þetta reyndum við að endurspegla í rammasamkomulaginu frá síðasta ári, en lykilforsendur samkomulagsins eru ákvæði um jöfnun lífeyrisréttinda og trygging taxtalaunahópa á opinberum og almennum vinnumarkaði fyrir því að sitja ekki eftir í launaskriði.
Aftur var það þannig líkt og í ársbyrjun 2014 að aðildarfélög ASÍ og BSRB samþykktu að feta þetta einstigi saman í viðræðum við okkar gagnaðila og undirrituðum rammasamkomulagið í október á síðasta ári, en félögin að baki Kennarasambandinu og BHM treystu sér ekki í vegferðina vegna ágreinings eða efasemda um lausn lífeyrismálanna.
Jöfnun lífeyrisréttinda hefur reyndar verið til umfjöllunar býsna lengi og í sjálfu sér breið samstaða um framtíðarskipan lífeyrismála. Vandinn hefur snúið að því hvernig við förum frá núverandi kerfi og yfir í þessa framtíðarskipan. Í rammasamkomulaginu reyndum við að setja niður vegstikur á þeirri leið sem hvor aðili þyrfti síðan að semja sig að. Aðildarfélög ASÍ sömdu við atvinnurekendur í janúar á þessu ári um að breyta almenna lífeyriskerfinu að þessari framtíðarskipan með hækkun iðgjalda í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5%. Ráðstöfuðum við hluta af okkar launakostnaðarsvigrúmi samkvæmt rammasamkomulaginu til þess og fengum minni beinar launahækkanir sem því nam. Samtök opinberra stafsmanna hafa síðan átt í viðræðum við fulltrúa fjármálaráðherra og sveitarfélaga um aðlögun opinbera kerfisins að þessari framtíðarskipan lífeyrismála. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta hafa verið erfiðar viðræður. Við höfum ekki verið beinir aðilar að þessum viðræðum, þó ljóst sé að niðurstaða þeirra geti ekki orðið til í einhverju tómarúmi. Vinna við mótun samningalíkans hefur m.a. dregist verulega vegna þessara tafa, en upphaflega stóð til að ljúka þeim fyrir lok janúar. Það var því mikið fagnaðarefni þegar tilkynnt var í september að náðst hefði samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna við samtök opinberra starfsmanna um lífeyrismál og við blasti að heildarsamtök launafólks í landinu gætu sameinast í viðræðum við gagnaðila okkar og stjórnvöld um ekki bara nýtt samningalíkan heldur einnig nýtt og breytt samfélagsmódel. Samninganefnd ASÍ var kynnt þetta samkomulag og taldi efni þess vera í samræmi við það sem um hafði verið rætt og að hafi verið stefnt.
Það voru því að sama skapi gríðarleg vonbrigði þegar í ljós koma grundvallar ágreiningur milli samningsaðilanna um hvað hefði verið samið þegar ríkisstjórn lagði fram frumvarp til laga um breytingar á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ekki alveg ljóst hvernig eigi að leysa úr þeim ágreiningi. Eins og áður sagði vorum við ekki beinir aðilar að þessum viðræðum og eigum því í nokkrum vanda með að átta okkur á stöðunni, einkum þegar orð standa gegn orði milli samningsaðila. Hvað sem öðru líður, treysti fjármálaráðherra sér ekki til þess að fylgja þessu máli eftir á Alþingi í ágreiningi við samtök opinberra starfsmanna hér í aðdraganda kosninga. Miðstjórn ASÍ brást hins vegar mjög harkalega við þegar stjórnvöld kynntu áform um að ekki bara þvinga fram hækkun lífeyristökualdurs almennings í 70 ár á sama tíma og verja átti 65 ára lífeyristökualdur alþingismanna og opinberra starfsmanna, heldur átti að hraða breytingunni úr 24 árum í 12 ár. Það er alveg ljóst að ef til þessa hefði komið hefði það eitt og sér leitt til mikilla átaka og sem betur fer féllst bæði ríkisstjórn og Alþingi á rök okkar fyrir því að þessi mál verði að haldast í hendur – jöfnun lífeyrisréttinda og breytingar á lífeyristökualdri í almannatryggingakerfinu.
Eftir stendur að ekki hefur náðst samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda og þar með fellur vilyrði fyrir því að taxtalaunahópar á opinberum vinnumarkaði njóti launaskriðstryggingar. Frá okkar sjónarhóli er það alveg skýrt, að forsenda fyrir því að hægt verði að skapa sátt á vinnumarkaði um nýtt og breytt samningalíkan er, að það verði að vera jafnræði milli hópanna varðandi lífeyrismál og launaskrið. Nú er því mikil óvissa um framvindu þessara mála. Stjórnir bæði Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar – lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, hafa þegar ákveðið að að óbreyttu munu iðgjöld til þeirra hækka um 3,6% - 4,8% frá og með 1. janúar n.k. Verði það niðurstaðan blasir tvennt við. Draumur okkar um jöfnun lífeyrisréttinda fer enn einu sinni fyrir bý – og þar með forsendan fyrir áframhaldandi viðræðum um nýtt samningalíkan – og jafnframt munu forsendur okkar kjarasamninga sem koma til endurskoðunar í febrúar á næsta ári bresta.
Góðir félagar,
Það er við þessar aðstæður sem við ætlum hér á þessu þingi að ræða stefnu okkar og stöðu til næstu tveggja ára. Við höfum annars vegar fyrir okkur það verkefni að ræða kosti og galla Norræna samningalíkansins – líkan sem tryggt hefur frændum okkar meiri kaupmátt og betri lífskjör við skilyrði lágrar verðbólgu og lágra vaxta – en okkur hefur auðnast, og ákall okkar til stjórnmálanna um að slíkt líkan verði reist á forsendum félagslegs og efnahagslegs stöðuleika. Í þeirri umræðu er mikilvægt að hafa eitt skýrt leiðarljós og það er að nýtt og breytt samningalíkan er ekki markmið í sjálfu sér, heldur einungis verkfæri til að ná því markmiði sem sameinar okkur í eina órofna heild, það að bæta stöðugt lífskjör okkar félagsmanna og tryggja kröfu þeirra um jöfnuð og jafnræði. Hins vegar þurfum við að ræða opinskátt þá stöðu sem upp er komin. Viðræðum heildarsamtakanna á vinnumarkaði í Salek hópnum hefur verið slegið á frest og að óbreyttu stefnir í forsendubrest okkar kjarasamninga. Við gætum verið komin í deilu við okkar viðsemjendur þegar á næsta ári í viðleitni okkar að standa vörð um hagsmuni félagsmanna aðildarfélaga ASÍ. Hætta er við að sú deila verði býsna hörð og langvarandi og kalli á mikla samstöðu innan okkar raða. Verum því minnug þess að afl okkar felst í samstöðunni, það er með henni sem við getum haldið áfram að breyta þessu þjóðfélagi til betri vega.
Ég óska ykkur og okkur öllum velfarnaðar á þessu þingi og segi 42. þing Alþýðusambands Íslands sett.