Þing SGS – ávörp ráðherra og forseta ASÍ

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ávörpuðu 6. þing Starfsgreinsambands Íslands við setningu þess fyrr í dag.

Þorsteinn fór m.a. nokkrum orðum um þau verkefni sem unnið hefur verið að í þeim hluta velferðarráðuneytisins sem hann hefur farið fyrir á stuttu kjörtímabili sem brátt er á enda. "Verkefni sem varða á ýmsan hátt kjör og aðstæður launafólks í landinu og ráða sum hver mjög miklu máli um lífskjör fólks almennt. – Ég nefni hér sérstaklega húsnæðismálin, endurskoðun vinnumarkaðsmódelsins, aðgerðir til að draga úr launamun kynja og til að bæta aðferðafræðina að baki launasetningu, ég nefni starfsendurhæfingu, hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi, og eins nefni ég aðgerðir til að bæta eftirlit á vinnumarkaði og sporna við félagslegum undirboðum."

Ávarp Þorsteins í heild má finna hér.

 

Gylfi sagði m.a. að enginn vafi væri á því að pólitískur óstöðugleiki hefur haft mjög neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn og hamlað því að við getum þróað hann til betri vegar til að geta betur mætt nýjum áskorunum. "Deilt hefur verið um raunverulegt inntak hugtaksins ,,stöðugleiki‘‘ þar sem Alþýðusambandið hefur bæði lagt áherslu á að jafnvægi verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika – að þetta séu tvær hliðar á sama peningi sem hlúa verður jafnt að – og sett það sem fyrirvara við frekari umræðu og þróun á nýju samningamódeli hér á landi. Stjórnmálin verða að gera sér grein fyrir þeirri alvöru sem að baki þessari kröfu liggur og komið velferðarmálunum í þann farveg að þau verði í raun reist á grundvelli norrænu samfélagsgerðarinnar. Til að árétta þessa stöðu hefur miðstjórn ASÍ ákveðið og þegar hafið kynningu á því sem við höfum kallað ,,samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika‘‘ með áherslu á öflugt heilbrigðiskerfi, öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum, að allir búi við örugga afkomu og aðstæður, að vinnumarkaðurinn byggi á ábyrgum stoðum og traustri velferð og að tekjuöflun hins opinbera byggi á réttlátu skattkerfi."

Ávarp Gylfa í heild má finna hér.