Þing SGS – ávörp ráðherra og forseta ASÍ

Eygló Harðardóttir, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ávörpuðu 4. þing Starfsgreinsambands Íslands við setningu þess í dag.

Eygló sagði góð teikn vera á lofti um að vinnumarkaðurinn væri að braggast og atvinnuleysi að minnka en hins vegar væru stór verkefni eftir: „Stóra verkefnið nú er að byggja upp öflugan, sjálfbæran vinnumarkað með fjölbreyttum og eftirsóknarverðum störfum við allra hæfi. Til þess þurfum við að móta okkur framtíðarsýn í atvinnumálum á breiðum grundvelli og til þess þurfum við víðtækt samráð og samstarf.“

Þá gerði hún grein fyrir því að hún hefði ákveðið að setja af stað vinnu við að móta heildstæða stefnu til framtíðar um vinnumarkaðsmál. „Ég vil að atvinnumál fatlaðs fólks verði hluti af þeirri stefnu, því mér finnst eðlilegt og mikilvægt að horft sé á atvinnumál allra í samhengi í stað þess að taka tiltekna hópa út fyrir sviga. Það er líka mikilvægt að vinnumarkaðsstefnan veki jákvæða framtíðarsýn hjá ungu fólki og hvetji til aukinnar menntungar og betri tengingar milli þeirrar menntunar sem fólk velur sér og þarfa atvinnulífsins.”

Ávarp Eyglóar í heild má finna hér.

 

Gylfi kom víða við í ræðu sinni en honum var þó tíðrætt um undirbúning kjarasamningana og það megin stef sem aðildarsambönd ASÍ virtust vera sammála um. Verkalýðshreyfingin vill stutta kjarasamninga, stöðugt verðlag og aukinn kaupmátt. Þá virðast allir vilja leiðrétta ákveðna hópa umfram aðra.

Gylfi harmaði skort á samráði við núverandi stjórnvöld sem hafi haft fögur orð um samráð og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Því miður hafi lítið farið fyrir því enn svo lengi. Í nýframlögðu fjárlagafrumvari væri að finna rangar áherslur og forgangsröðun. Þetta er nokkuð sem verkalýðshreyfingn mun ekki sætta sig við og nú verði að varnarbarátta um velferðarkerfið að hefjast.

Að lokum kom Gylfi inn á þau málefni og þætti sem aðildarfélög ASÍ teldu nauðsynlegt að ræða við stjórnvöld og atvinnurekendur í komandi kjarasamningum, ef ekki eigi að koma til harðvítugra átaka á næstu mánuðum. Breið sátt og samstaða á meðal launafólks væri hinsvegar forsenda þess að hægt að ná fram leiðréttingum á lífskjörum. Verkalýðshreyfingin þarf að nota veturinn til að undirbyggja sáttina sem geti lagt grunn að raunverulegum stöðugleika og uppbyggingu sem byggi á traustu velferðarkerfi og  jöfnuði í þessu landi

Glærur sem Gylfi notaði má finna hér.