Í Vikudegi sem kom út í dag má m.a. finna grein eftir Björn Snæbjörnsson, formann félagsins, þar sem hann fjallar um komandi kjarabaráttu, þá vinnu sem búin er og það sem er framundan hjá félaginu. Greinina má lesa hér fyrir neðan.
Þannig náum við árangri
Kjarasamningar þorra verkafólks renna út um áramótin og víst er að í komandi kjarabaráttu verða verkalýðsfélögin að halda vel á spilunum, svo sem með því að skipuleggja sem best vinnuna við mótun kröfugerðarinnar.
Í þeirri vinnu skiptir höfuðmáli að ná til sem flestra félagsmanna. Eining-Iðja hefur kappkostað að kalla eftir áliti þeirra, skoðanakannanir hafa verið gerðar og boðað til funda á öllu félagssvæðinu, þar sem rætt er um hvað félagið ætti að leggja áherslu á í komandi kjaraviðræðum.
Í kjölfar aðalfundarins í lok mars var samninganefnd félagsins kölluð saman, og hófst hún þegar handa við að undirbúa jarðveginn.
Óhætt er að segja að félagsmenn hafi svarað kallinu.
Viðamikil könnnun gerð meðal félagsmanna
Í lok apríl lagði Eining-Iðja könnun fyrir félagsmenn til að afla upplýsinga um áherslur í komandi kjaraviðræðum. Þátttaka var mjög góð, svör bárust frá 1483 félagsmönnum. Sérstaklega var þess gætt að ná til fólks af erlendum uppruna, þannig bárust 134 svör á pólsku og 102 svör á ensku.
Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri sá um að greina svörin og vinna úr niðurstöðunum.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telja flestir brýnast að kröfur gagnvart atvinnurekendum verði að auka kaupmátt launa og að launahækkun verði í krónutölu. Gagnvart ríkinu leggja flestir svarendur áherslu á að hækka skattleysismörk og að lækka skattaprósentu.
Þessi viðamikla könnun og greining R.H. gefur glögga mynd af vilja félagsmanna.
Grasrótin ræður ferðinni. 31 fundur haldinn.
Hér var þó ekki látið staðar numið.
31 opinn fundur var haldinn með öllum starfsgreinum innan félagsins, þar sem farið var yfir kröfur sérstakra hópa og vinnustaða. Á þessum fundum komu fram fjölmörg atriði sem koma til með að nýtast samninganefnd félagsins í þeirri vinnu sem framundan er.
Nærri lætur að hátt í 2.000 félagsmenn hafi komið að þessum hluta undirbúningsins, sem sýnir að félagsmenn vilja taka virkan þátt í félagsstarfinu. Samstaða skilar árangri, það hefur margsinnis sýnt sig.
Kjarabarátta og undirbúningur kjaraviðræðna er síður en svo einkamál nokkurra forsvarsmanna félagsins. Grasrótin ræður ferðinni.
Bestu þakkir eru hér með færðar öllum þeim sem tóku þátt í könnuninni og mættu á opna fundi félagsins. Þessi mikla þátttaka sýnir og sannar að stoðir félagsins eru sterkar nú sem fyrr.
Lykillinn að kröftugri kjarabaráttu
Nú er komið að því að flokka niðurstöður opnu fundanna og skrá þær áherslur sem þar komu fram. Samninganefndin kemur svo saman í byrjun september, þar sem drög að kröfugerð verða lögð fram.
Þar á eftir verður enn á ný efnt til opinna funda, þar sem drögin verða kynnt og rædd ítarlega. Í kjölfarið verður fullmótuð kröfugerð send Starfsgreinasambandi Íslands.
Með þessu verklagi er augljóst að öllum starfandi félagsmönnum gefst tækifæri til að hafa áhrif á gerð kröfugerðarinnar, áður en gengið er endanlega frá henni.
Góður undirbúningur er lykillinn að kröftugri kjarabaráttu.
Verkafólk á að njóta góðærisins
Margt bendir til þess að kjarabaráttan næsta vetur verði harðari en oft áður, svör vinnuveitenda í tengslum við komandi kjaraviðræður benda til þess.
Fréttir af ofurlaunum hafa ekki farið fram hjá verkafólki og allar hagtölur sýna að góðæri ríkir í landinu. Verkafólk á að njóta góðærisins, ekki bara topparnir og sjálftökuliðið.
Félagsmenn, takið virkan þátt í félagsstarfi Einingar-Iðju.
Þannig náum við árangri.