Takk fyrir samstarfið Madda og Sigrún

Hér má sjá Möddu og Sigrúnu fyrr á árinu er þær voru að draga út nöfn heppinna vinningshafa úr fjölm…
Hér má sjá Möddu og Sigrúnu fyrr á árinu er þær voru að draga út nöfn heppinna vinningshafa úr fjölmörgum réttum innsendum lausnum verðlaunagetraunar og verðlaunakrossgátu sem birtust í jólablaði Einingar-Iðju í desember sl.

Í dag er síðasti formlegi vinnudagurinn hennar Möddu, Margrétar Einarsdóttur, eftir langan starfsferil hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum, nú síðast hjá Einingu-Iðju í 24 ár. Madda mun þó verða nýjum skráningar og innheimtustjóra félagsins innan handar fram í ágúst.
Í dag mun líka Sigrún Lárusdóttir, fyrrum skrifstofustjóri Einingar-Iðju, láta formlega af störfum eftir 46 ára starf fyrir Einingu-Iðju og Einingu þar á undan.

Björn formaður sagði eftirfarandi um þessi tímamót í ræðu á aðalfundi félagsins sem fram fór fyrr í vikunni. "Þó nokkrar breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi félagsins eða eru að verða, en núna 1. maí mun Sigrún Lárusdóttir skrifstofustjórinn okkar hætta eftir 46 ára starf hjá félaginu. Og síðar á árinu mun Margrét Einarsdóttir hætta eftir mjög langan starfstíma hjá lífeyrissjóðum og núna í mörg ár sem starfsmaður okkar. Ég ætla ekki að reyna að segja það hvað dýrmætir starfskraftar þær stöllur hafa verið okkur. Sigrún og Margrét hafið mikla þökk fyrir ykkar frábæru störf og ekki síst fyrir okkar frábæra samstarf og hvað þið bremsuðuð mig oft af þegar ég fór á of mikið flug að ykkar mati. Það verður mikil eftirsjá og missir hjá samstarfsfólki ykkar. Þið voruð límið í starfshópnum, nú er annara að taka við keflinu. Gangi ykkur báðum vel að njóta þess að vera hættar að vinna eftir langan og oft erfiðan vinnudag."

Starfsmenn félagsins segja sömuleiðis við Möddu og Sigrúnu takk fyrir samstarfið undanfarin ár og áratugi.