Á vef SGS segir að á Norðurlandaþingi stéttarfélaga starfsfólks í ferðaþjónustu sem fram fór nýlega var meðal annars fjallað um tæknibyltinguna og áhrif hennar á greinina. Rannsakendur frá sænskum háskóla gerðu grein fyrir niðurstöðum sínum en spurningarnar sem þau vildu fá svar við voru: Hvernig nota ferðamenn stafræna miðla? Geta fyrirtæki í ferðaþjónustu valið að taka ekki þátt í stafrænum heimi? Hvað eiga fyrirtæki að hugsa út í varðandi stafrænar lausnir?
Sjónum var sérstaklega beint að ungu fólki sem fætt er eftir 1982 en sú kynslóð gengur undir ýmsum nöfnum; aldamótakynslóðin, Y-kynslóðin, týnda kynslóðin eða Pétur Pan kynslóðin. 97% þessarar kynslóðar notar netið daglega og tenging við WiFi er orðin ein af grunnþörfum kynslóðarinnar. Ungt fólk í dag gerir kröfu um að vera sítengt og fá skjót og góð viðbrögð á netinu. Þegar ungt fólk skipuleggur fríið sitt þá gerist það í gegnum netið, bæði á bókunarsíðum og á heimasíðum viðkomandi flugfélags eða hótels. Flestir nota símann sinn en notkun spjaldtölva er á miklu undanhaldi. Fyrirtæki verða því að vera með gott viðmót fyrir netnotkun í gegnum síma.
Það skiptir öllu máli fyrir fyrirtæki sem bjóða uppá gistingu að bjóða líka uppá WiFi án endurgjalds. Þegar á staðinn er komið og eftir að heim er komið aftur þarf fólk að fá hvata til að skrifa um fyrirtækið þannig að aðrir njóti reynslunnar. Fyrirtækið verður líka að vera viðbúið að mæta neikvæðri gagnrýni á netinu. Niðurstaða rannsóknanna var sú að ferðaþjónustufyrirtæki geta ekki sleppt því að vera á netinu og viðmót þeirra, aðgengileiki og virkni á netinu skiptir öllu máli til að ná viðskiptum hinnar ungu kynslóðar sem ferðast mikið.