Blessunarlega gefur árangur vísindamanna og lyfjafyrirtækja tilefni til að ætla að nú sjái fyrir endann á heimsfaraldrinum og að eðlilegt líf komist í nokkurn veginn eðlilegt horf með hækkandi sól. Þar með fara hjól atvinnulífsins að snúast hraðar.
Sameiginlegir sjóðir til hjálpar
Sem betur fer var ríkissjóður ágætlega í stakk búinn til þess að grípa til ýmissa mótvægisaðgerða, gríðarlegum fjármunum hefur verið varið úr sameiginlegum sjóðum til þess að verja atvinnulífið, meðal annars varðandi launakostnaðinn. Segja má að ferðaþjónustan hafi verið sett á ís. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að fyrir heimsfaraldurinn benti margt til þess að vöxtur greinarinnar væri á undanhaldi.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 varð íslensk ferðaþjónusta á skömmum tíma ein helsta atvinnugrein landsins, og nú gerum við okkur væntingar um að fólk verði senn tilbúið til að ferðast. Ísland er í góðri stöðu sem ferðamannaland. Sömuleiðis er ekki ólíklegt að ímynd Íslands hafi styrkst vegna viðbragða við heimsfaraldrinum og þess vegna verði litið til landsins sem vænlegs áfangastaðar.
Svört atvinnustarfsemi
Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að tilkynningar um svarta atvinnustarfsemi berist til verkalýðshreyfingarinnar, innan ferðaþjónustunnar eru slíkar tilkynningar áberandi. Oft á tíðum virðist vera einbeittur brotavilji innan fyrirtækjanna og mörg dæmi eru um stórfelld svik og kjarasamningar þverbrotnir.
Slíkt er auðvitað ekki hægt að líða og ég undirstrika að greinin hefur verið styrkt fjárhagslega í kjölfar heimsfaraldursins úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Starfshópur Alþýðusambands Íslands um framtíð ferðaþjónustunnar hefur skilað skýrslu til miðstjórnar sambandsins, þar sem stefnuskjal með áherslum ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar var samþykkt. Í skýrslunni er bent á að í stefnu stjórnvalda um ferðaþjónustuna er ekki með einu orði vikið að starfsfólki í greininni. Starfsfólkið er auðvitað einn af hornsteinum greinarinnar. Undirstrikað er að verkalýðshreyfingin eigi skýlausan rétt á aðkomu að stefnumótun stjórnvalda um framtíð og enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar.
Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði
Atvinnurekendur þekki réttindi og skyldur
Verkalýðshreyfingin telur að gera beri kröfu um lágmarksþekkingu (t.d. námskeið) stofnenda/rekstraraðila fyrirtækja. Sá sem hefur með rekstur fyrirtækis og mannahald að gera ljúki námskeiði þar sem farið er yfir starfsmannahald réttindi og skyldur. Verkalýðshreyfingin gengst fyrir trúnaðarmannanámskeiðum og námskeiðum fyrir stjórnarmenn í lífeyrissjóðum. Ætla má að Samtök atvinnulífsins gætu gert sambærilegt fyrir sína félagsmenn.
Innviðir og störf
Allra hagur
Þó svört atvinnustarfsemi sé oftast bendluð við ferðaþjónustuna er rétt að taka fram að flest fyrirtækin í greininni fara eftir lögum og reglum. Það eru hins vegar allt of mörg fyrirtæki sem hafa komist upp með að brjóta gróflega á launafólki og svíkja undan skatti. Þannig komast þau upp með að greiða minna til samfélagsins.
Verkalýðshreyfingin mun fylgja þessum baráttumálum fast eftir, enda allra hagur.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands og formaður Einingar-Iðju.