Svona tíðindi eru alltaf slæm

Í gær bárust þær fréttir að öllu starfsfólki Sigluness og Útgerðarfélagsins Ness á Siglufirði hafi verið sagt upp störfum frá og með næstu mánaðamótum. Alls starfa 35 manns hjá fyrirtækjunum. Í tilkynningu frá eigendum fyrirtækjanna segir að nú eigi að fara í endurskipulagningu á þeim. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segist hafa af þessu þungar áhyggjur. „Svona tíðindi eru alltaf slæm og ekki síst nú svona rétt fyrir jólin. Ég vona bara að sem flestir verði endurráðnir.“

Tilkynningin í heild hljóðar svo:

Uppsagnir á starfsfólki hjá Siglunesi hf. og Útgerðarfélaginu Nesi ehf.

Vegna erfiðra rekstrarskilyrða í sjávarútvegi þá er óhjákvæmilegt annað en að segja upp öllu starfsfólki hjá fyrirtækjum okkar frá og með 30. Nóvember 2012 samtals 35 manns og fara í endurskipulagningu á fyrirtækjunum.

Ástæður uppsagnanna eru auknar álögur á fyrirtæki í sjávarútvegi sem er auðlindagjald og sérstakt veiðigjald, einnig óskiljanlegur niðurskurður í ýsukvóta, lækkandi afurðarverð á mörkuðum okkar og nýgerðir kjarasamningar landsambands smábáta og sjómannasambandsins.

Það er von okkar að það verði hægt að endurráða sem flesta að þessum aðgerðum loknum.

Gunnlaugur Oddsson
Freyr Steinar Gunnlaugsson