Nú þegar fjárhagsáætlanagerð stendur yfir hjá sveitarfélögunum minnir Alþýðusamband Íslands á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor þar sem mælst var til þess að sveitarfélögin tækju þátt í að stuðla að verðstöðugleika með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám.
Í yfirlýsingunni beindi Samband íslenskra sveitarfélaga þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020, og minna ef verðbólga væri lægri, en yfirlýsingin vó þungt í heildarniðurstöðu kjarasamninga.
Sveitarstjórnir ákvarða gjöld fyrir ýmsa þjónustu sveitarfélaganna en þar má m.a. nefna leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundaheimili, skólamáltíðir, sundlaugar auk fasteignagjalda en ljóst er að hækkanir á opinberum gjöldum sem þessum minnka ávinning launafólks af kjarasamningum.
Nauðsynlegt að lækka álagningarhlutfall eigi hækkanir á fasteignagjöldum að vera innan við 2,5%
Fasteignagjöld eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteignamati og munu hækkanir á fasteignamati því leiða til hækkana á fasteignagjöldum ef engar breytingar verða gerðar á álagningarhlutfalli sveitarfélaganna.
Breytingar á fasteignamati fyrir næsta ár hafa legið fyrir síðan í sumar og því ljóst hvernig fasteignaskattar munu hækka í hverju sveitarfélagi ef álagningarhlutfallið helst óbreytt. Ef breyting á fasteignamati í 22 hverfum í 16 stærstu sveitarfélögunum er skoðuð, má sjá að í öllum tilfellum nema einu hækkar fasteignamatið milli ára. Þannig lækkar fasteignamatið einungis í miðbæ Reykjavíkur, um 2% í fjölbýli og 1,1% í sérbýli en töluverðar hækkanir má sjá á fasteignamati í öðrum hverfum eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.
Opinberum aðilum ber að sýna ábyrgð og taka þátt í því að viðhalda verðstöðugleika svo að markmið kjarasamninga um aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og lægri vexti nái fram að ganga. Alþýðusambandið ætlast til þess að sveitastjórnir landsins axli þessa ábyrgð í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð og standi við gefnar yfirlýsingar gagnvart launafólki.
ASÍ mun veita sveitarfélögum aðhald og fylgjast náið með gjaldskrárbreytingum á næstu vikum.
Smelltu á myndina til að stækka hana.