Í jólablaði félagsins sem kom nýlega út má m.a. finna eftirfarandi viðtal við Möddu og Sigrúnu sem nýlega létu af störfum hjá félaginu.
Þann 30. apríl sl. var síðasti formlegi vinnudagurinn hennar Möddu, Margrétar Einarsdóttur, eftir langan starfsferil hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum, nú síðast hjá Einingu-Iðju í 24 ár. Madda var þó nýjum skráningar- og innheimtustjóra félagsins innan handar fram í ágúst. Sama dag lét Sigrún Lárusdóttir, fyrrum skrifstofustjóri Einingar-Iðju, einnig formlega af störfum eftir 46 ára starf fyrir Einingu-Iðju og Einingu þar á undan.
Á aðalfundi félagsins sem fram fór í lok apríl hafði Björn formaður m.a. eftirfarandi að segja um þessi tímamót. „Þó nokkrar breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi félagsins eða eru að verða, en núna mun Sigrún Lárusdóttir skrifstofustjórinn okkar hætta eftir 46 ára starf hjá félaginu og síðar á árinu mun Margrét Einarsdóttir hætta eftir mjög langan starfstíma hjá lífeyrissjóðum og núna í mörg ár sem starfsmaður okkar. Ég ætla ekki að reyna að segja það hvað dýrmætir starfskraftar þær stöllur hafa verið okkur. Sigrún og Margrét hafið mikla þökk fyrir ykkar frábæru störf og ekki síst fyrir okkar frábæra samstarf og hvað þið bremsuðuð mig oft af þegar ég fór á of mikið flug að ykkar mati. Það verður mikil eftirsjá og missir hjá samstarfsfólki ykkar. Þið voruð límið í starfshópnum, nú er annarra að taka við keflinu. Gangi ykkur báðum vel að njóta þess að vera hættar að vinna eftir langan og oft erfiðan vinnudag.“
Tíðindamaður blaðsins settist nýlega niður með þeim og forvitnaðist um tíma þeirra hjá félaginu, sem telur nokkur ár og jafnvel aðeins rúmlega það.
„Einu gleymi ég aldrei,“ segir Sigrún. „Það var þegar ég kom inn á skrifstofuna í fyrsta skipti eftir að ég var ráðin. Ég hafði bara sent inn umsókn, var ráðin og átti að mæta og mætti og vissi ekkert hverjir voru að vinna hjá félaginu eða neitt. Það fyrsta sem ég fékk í hendur var bók sem notuð var til að færa inn nöfn fyrirtækja og upphæðir sem þau voru að greiða til félagsins og fékk spurninguna „Ertu með penna?“ Þarna var ég að mæta í fyrsta sinn í vinnuna og var spurð að því hvort ég væri með penna. Ég var með penna og notaði hann árum saman, þennan fína Parker penna. Ég varð svo hissa að ég gleymi þessu aldrei.“
Hennar fyrsta verk var sem sagt að skrifa inn í þessa bók hvaða fyrirtæki væru að borga til félagsins og hve mikið í hvern sjóð, félagssjóð, sjúkrasjóð og orlofssjóð. „Svo þurfti ég að leggja saman hvern sjóð fyrir sig og auðvitað þurfti samtalan úr dálkunum þremur líka að passa saman við skilagreinarnar. Það verður nú að segjast að vinnan hafi orðið auðveldari eftir að tölvan kom til sögunnar.“
Skjárinn hér en tölvan þar!
Margrét segir þetta vera gott dæmi um að breytinguna frá því þær hófu störf, „frá því að handvinna allt og í það að tölvan geri svo að segja allt. Ég byrjaði mína vegferð hjá verkalýðshreyfingunni árið 1976, hjá Lífeyrissjóðnum Sameiningu, svo hjá Alþýðusambandi Norðurlands, Trésmiðafélagi Akureyrar og Lífeyrissjóði trésmiðja, Iðju félagi verksmiðjufólks Akureyri og Lífeyrissjóði Iðju, Lífeyrissjóði Norðurlands og að síðustu Einingu-Iðju frá árinu 1997. Mig minnir að fyrsta tölvan sem ég vann við hafi verið á sameiginlegri skrifstofu Trésmiðafélags Akureyrar og Lífeyrissjóðs trésmiða á Ráðhústorgi 2 árið 1984.”
“Við höfum nú gengið í gegnum allskonar kerfisbreytingar á þessum tíma og oft þurftum við að læra algjörlega nýja hugsun í því sambandi. Til að byrja með má segja að þróun kerfanna hafi verið svolítið fálmandi, ekki alveg ljóst hvernig ætti að nálgast hagkvæmustu lausn. Það reyndi nú stundum á hausinn á manni, en það er nú bara jákvætt.“
Sigrún er fljót að jánka því. „Þetta hafa verið stöðugar breytingar, frá því í upphafi að fletta félagsmönnum í spjaldskránni yfir í að ýta á einn takka og fá upplýsingar um viðkomandi um leið. Þú varst aðeins lengur að leita þegar upplýsingar um hvern og einn félagsmann voru í spjaldskrá sem var raðað í kassa eftir stafrófsröð. Svo þurfti auðvitað að skrifa inn á hvert spjald fyrir sig þegar einhverju þurfti að breyta.“
Sigrún segir að þegar félagatalið var sett í tölvu þá þurfti auðvitað að skrá alla félagsmenn inn í kerfi sem verið var að nota sem hét Erla. „Það verður nú að viðurkennast að hraðinn á kerfinu var nú ekki alveg sá sami og í dag. Við vorum tengd suður á þessum tíma með félagatalið okkar, þannig að við vorum bara með skjái og lyklaborð en sjálf tölvan var fyrir sunnan. Það þýddi ekkert að setja of mikið af upplýsingum inn í einu því þá gerðist ekkert. Það þurfti bara að setja inn eina færslu, ýta á enter og bíða aðeins áður en þú gast byrjað á þeirri næstu. Ég man eftir einum á skrifstofunni sem var aðeins of hraðvirkur, ýtti ótt og títt á enter og skildi ekkert í því að ekkert gerðist.“
Aðeins of stór bók
Sigrún segir að bókfærslubækurnar hafi verið góður metri á breidd þannig að hún þurfti að vera á hjólastól til að geta rennt sér á milli dálka, til að ná frá þeim fremsta til aftasta. “Við gáfum auðvitað út kauptaxta þá eins og nú sem Þorsteinn á skrifstofunni sá um að prenta. Hann var með vél sem prentaði þannig að út komu fjórar blaðsíður á hverju blaði. Við þurftum svo að brjóta saman blöðin, eitt og eitt í einu, og raða þessu saman þannig að þetta myndaði bók. Auðvitað þurfti líka að hefta hvert og eitt eintak í lokin. Þannig að handtökin voru mun fleiri við framleiðsluna og pínu meiri handavinna miðað við í dag þar sem segja má að nóg sé að ýta á einn takka á ljósritunarvélinni.”
Töldu peninga í umslag
Margrét segir að á fyrstu árunum þegar félagsfólk fékk einhverjar greiðslur, t.d. atvinnuleysisbætur, lífeyri og fleira þá þurfti að skrifa ávísanir. “Ekki samt til að byrja með,“ segir Sigrún, „þá vorum við bara með peninga sem þurfti að telja í umslag fyrir hvern og einn. Við vorum búin að leggja saman hve háa upphæð við þurftum og líka hve marga þúsundkalla, hundraðkalla, krónur, aurar og allt það sem við þurftum á að halda. Svo var farið með útfyllta ávísun upp í Landsbanka þar sem við fengum til baka upphæðina í peningum. Þá þurfti að telja rétta upphæð í hvert einasta umslag. Ef það hefði verið afgangur eða eitthvað ekki passað þegar því verki var lokið þá hefðum við þurft bara að byrja upp á nýtt. Svo komu ávísanir, sem var algjör bylting á þeim tíma.“ Sigrún bætti við að hún myndi reyndar ekki eftir því að það hefði verið afgangur þegar talið var í þessa umslög og tók Madda undir það.
Aðspurðar hvort nándin við félagsmennina hefði verið meiri í upphafi ferils segja þær að fólk hafi komið á skrifstofuna í allskonar erindagjörðum, bara eins og núna. Þannig að þær vilja ekki meina það. „Á þessum tíma sá félagið líka um að borga út atvinnuleysisbætur og auðvitað komu margir þegar verið var að borga þær út. Núna er ekki full forstofa af fólki eins og var þegar útborgun á atvinnuleysisbótum fór fram,“ segir Margrét.
Mesta breytingin
Þær eru sammála um að mesta breytingin hafi verið þegar tölva kom á skrifstofuna upp úr 1980. „Lífeyrissjóðurinn var með innheimtuna fyrir félagið á þeim tíma þannig að það var bara bókhaldið sem var sett í tölvu. Munurinn var gríðarlegur og ég þurfti ekki lengur að renna mér á stólnum til að ná að fylla í dálkana,“ segir Sigrún.
„Þetta er ótrúlega mikil breyting,“ segir Margrét „á ekki lengri tíma, úr blaði og penna og yfir í tölvuvinnslur,“ bætir Sigrún við. „Þetta er bara ein starfsævi, erum báðar mjög ungar árin 1974 og 1976 þegar við erum að byrja,“ segir Margrét „og erum ungar enn,“ bætir Sigrún við. „Nú er verið að keyra færslur beint úr bönkunum yfir á reikninga og reikningar koma beint inn í tölvuna hjá okkur. Þannig að þetta er engin smá breyting á stuttum tíma í sögunni,“ segir Margrét.
Grunnurinn er alltaf sá sami
Hefur þjónustan breyst frá því þið voruð að byrja? „Grunnurinn er auðvitað alltaf sá sami en umfang félagsins er mun meira í dag. Til dæmis varðandi alla styrki úr sjúkrasjóði, þá voru bara í boði sjúkradagpeningar og var reyndar í langan tíma,“ segir Sigrún, en fljótlega eftir að hún hóf störf var hún sest í stjórn sjúkrasjóðs félagsins og sat í henni allan sinn starfsferil og sem formaður hennar í lengstan tíma. „Svo eru það orlofshúsin og íbúðirnar, fræðslustyrkirnir sem félagsmenn geta sótt um í fræðslusjóðina þrjá og þannig mætti lengi telja.“
Margrét segir að hún hafi, sem innheimtustjóri félagsins síðustu 20 árin, verið í meiri samskiptum við vinnuveitendur en félagsmenn. „Heilt yfir hafa samskipti við vinnuveitendur gengið mjög vel, með örfáum undantekningum. Ég hef átt mína “góðkunningja” í gegnum tíðina, sem hafa ekki endilega vandað mér kveðjurnar. Það voru þá þeir sem voru í mesta baslinu með að standa í skilum. Það er, eins og gengur, ástæða fyrir öllum hlutum. Heilt yfir kann ég þeim miklar þakkir fyrir samskiptin”.
“Ég verð til dæmis að segja frá því að þegar ég var hjá Trésmiðafélaginu þá komu “einyrkjarnir” gjarnan á gamlársdag og gerðu upp árið, höfðu þá gjarnan með sér konfekt eða “lögg í flösku” til að hafa með kaffinu.”
Er fríið ekki að verða búið?
Aðspurðar segjast þær ekki sjá eftir starfsferlinum, að hafa verið í þessum geira. „Í fyrsta lagi er þetta mjög skemmtilegt, að vinna hjá stéttarfélagi,“ segir Margrét og Sigrún bætir við „Í öðru lagi hefur alltaf verið góður mórall á vinnustaðnum og gott fólk sem við höfum verið að vinna með. Það hefur valist hérna inn alveg ótrúlega gott fólk,“ segja þær báðar. „Þetta eru ekki bara starfsfélagar heldur vinir okkar, alveg fram í rauðan dauðann! Enda eru það vinnufélagarnir sem við söknum mest, núna þegar við erum búnar að vera í þessu fríi að undanförnu.“ Sigrún segir og Madda tekur undir að það taki nokkra mánuði að fatta að þú ert ekki í fríi, að nýr veruleiki sé tekinn við. “Þá er nú gott að kíkja á skrifstofuna í kaffi og hitta vinnufélagana.”
Þær hafa greinilega ekki fengið nóg hvor af annarri eftir allan þennan tíma sem vinnufélagar því núna búa þær í sama fjölbýlishúsinu. „Við hittumst nú af og til, ekkert á hverjum degi. Við reynum samt svona annað slagið að fá okkur kaffisopa saman,“ segja þær að lokum.