Varða - Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins gerði nýlega könnun meðal starfsfólks sveitarfélaganna sem er í félögum SGS um hvernig vinnutímastyttingin tókst og framkvæmd hennar. Búið er að boða trúnaðarmenn Einingar-Iðju sem starfa hjá sveitarfélagi á rafrænan fund í næstu viku þar sem Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, mun fara yfir niðurstöður hennar.
Á vef SGS segir að könnunin leiddi í ljós að tæplega helmingur svarenda eru frekar eða mjög ánægðir með styttingu vinnuvikunnar, en til samanburðar segist fjórðungur vera hvorki ánægð né óánægð og rúmlega fjórðungur eru frekar eða mjög óánægð.
Ánægjan er útbreiddari meðal kvenna og þá er fólk af pólskum uppruna almennt ánægðari með styttinguna miðað við fólk af fólk af íslenskum uppruna.
Ánægja með styttingu vinnuvikunnar var sömuleiðis greind eftir vinnufyrirkomulagi og eru þau sem eru í dagvinnu mun ánægðari en þau sem stunda vaktavinnu. Þegar litið er til starfshlutfalls er ánægjan sömuleiðis mest meðal þeirra sem eru í fullu starfi.
Áberandi er þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir starfsstéttum að starfsfólk í umönnun á stofnunum er sá hópur sem er óánægðastur með styttingu vinnuvikunnar. Hjá þessum sama hópi hafa launin lækkað hvað mest og minnst samráð var um innleiðinguna.
Í könnuninni var spurt út í innleiðingarferlið á styttingu vinnuvikunnar og er skemmst frá því að segja að þátttakendur eru mun ánægðari eftir því sem meira samráð var haft, sbr. kosningu á meðal starfsfólk. Á móti var ánægjan mun minni þegar lítið eða ekkert samráð var haft við innleiðinguna, sbr. þar sem stjórnendur tóku einhliða ákvörðun, en þess skal geta að í fylgiskjali 2 með kjarasamningi SGS og SNS skýrt kveðið á um að styttingin eigi að vera útfærð með samkomulagi milli atvinnurekanda og starfsfólks.
Það er áhyggjuefni hve víða var lítið eða ekkert samráð haft við starfsfólk við innleiðinguna, þjónusta hefur víða minnkað og ákveðnir hópar virðast hafa lækkað í launum.
Fulltrúar SGS munu styðjast við þessar niðurstöður í áframhaldi viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um innleiðingu styttingar vinnuvikunnar sem og kanna viðhorf launafólks til styttingar vinnuvikunnar út frá ýmsum lýðfræðilegum þáttum og fleiri bakgrunnsþáttum.
Könnunin, sem var lögð fyrir í lok nóvember og byrjun desember, var rafræn og hægt að svara bæði á íslensku og ensku.